Aldrei hafa jafnmargir greinst smitaðir af kórónaveirunni á einum degi á Indlandi líkt og í gær þegar tæplega 8500 greindust sýkt. Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times sem unnin er upp úr gögnum heilbrigðisyfirvalda. Greindum smitum í landinu hefur fjölgað hratt undanfarna daga og hafa þau verið um eða yfir átta þúsund á dag síðustu fimm daga.
Ástandið er verst í borginni Mumbai, þar hafa rúmlega 40 þúsund greinst með veiruna. Sjúkrahús í borginni hafa vart undan við að sinna sjúklingum og í frétt BBC segir að sums staðar hafi verið tveir til þrír sjúklingar um hvert sjúkrarúm.
Ofan á kórónuveirufaraldurinn leggst svo fellibylurinn Nisarga sem skellur á í nágrenni Mumbai í dag. Tugir þúsunda hafa verið flutt úr ótraustum híbýlum og á annað hundrað COVID-19 sjúklinga hafa verið flutt af bráðabirgðasjúkrahúsi sem var reist vegna faraldursins. Fellibylurinn er sá fyrsti af þessari stærðargráðu til að ná landi í Mumbai frá því á ofanverðri nítjándu öld.
Umfangsmesta útgöngubann í heimi
Indland er að vakna á ný eftir rúmlega tveggja mánaða útgöngubann sem tók gildi 25. mars síðastliðinn. Samkvæmt frétt BBC var fjöldi smitaðra 519 þegar útgöngubannið tók gildi og tala látinna þá alls tíu. Nú, rúmum tveimur mánuðum síðar, er tala látinna rúmlega 5.700 og fjöldi smita kominn yfir 200 þúsund, um helmingur þeirra er virk smit.
Útgöngubannið þar var það umfangsmesta í heimi, en í landinu býr rúmlega 1,3 milljarður manna. Nú hafa margir vinnustaðirverið opnaðir á ný og víða eru markaðir og almenningsgarðar fullir af fólki. Í næstu viku munu svo bænahús, verslunarmiðstöðvar, veitingastaðir og hótel geta opnað dyr sínar á ný. Skólar verða enn lokaðir og munu mögulega opna í júlí. Enn er í gildi útgöngubann um nætur, frá klukkan 21 til klukkan fimm á morgnana.
Efnahagshorfur í landinu hafa ekki verið eins slæmar í 30 ár. Útgöngubannið hafði áhrif á fyrirtæki þvert á geira atvinnulífsins og stefndi meðal annars fæðuöryggi í hættu. Atvinnuleysi hefur aukist mikið og milljónir hafa misst lífsviðurværi sitt.