Bretar hafa ekki brennt kol til að framleiða rafmagn í tvo mánuði. Aldrei hefur rafmagnsframleiðsla Breta verið kolalaus í jafn langan tíma en fyrra met var sett í júní í fyrra, þá komust Bretar hjá því að nota kol í rúmlega 18 daga samfleytt.
Í frétt BBC segir að við upphaf útgöngubanns í Bretlandi hafi eftirspurn eftir rafmagni minnkað töluvert og umsvif orkuvera þar í landi í kjölfarið. Kolaverin fjögur sem enn starfa í landinu voru með þeim fyrstu til að stöðva starfsemi sína og hlé varð á starfsemi síðasta kolafnsins á miðnætti 9. apríl.
En kórónuveirufaraldurinn er ekki eina ástæðan fyrir minnkandi hlutdeild kola á breskum orkumarkaði. Mikið púður hefur verið lagt í að breyta orkuframleiðslu á Bretlandi á síðustu áratugum með það að leiðarljósi að auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa. Til að mynda eru stærstu vindorkugarðar á sjó breskir.
Fyrir tíu árum síðan var 40 prósent af allri raforku í Bretlandi framleidd í kolaverum. Það sem af er ári er samanlögð hlutdeild jarðefnaeldsneytis í breskri orkuframleiðslu 35 prósent, þar vegur jarðgas þyngst. Til samanburðar er hlutur endurnýjanlegra orkugjafa 37 prósent, hlutur kjarnorku 18 prósent og restin, um tíu prósent, er innflutt orka frá Evrópu.
Kolin víðar á niðurleið
Minnkandi eftirspurn eftir raforku hefur minnkað hlutdeild kola í raforkuframleiðslu víðar en í Bretlandi. Samkvæmt umfjöllun BBC er það álit sérfræðinga í orkumálum að kolin munu ekki ná fyrri styrk að kórónuveirufaraldrinum liðnum.
Í Bandaríkjunum hefur endurnýjanleg orka tekið fram úr kolum í fyrsta sinn í ár, þrátt fyrir tilraunir Donalds Trumps til að styðja við bakið á greininni. Fyrir áratug var tæplega helmingur bandarískrar raforku framleiddur með kolum.
Endurnýjanleg orka hefur orðið ódýrari
Sömu sögu er að segja á Indlandi, þrátt fyrir að Indverjar séu sú þjóð sem aukið hafa raforkuframleiðslu með kolum hve mest á nýliðnum árum. Ástæðan fyrir minnkandi kolanotkun þar í landi má aðallega rekja til útgöngubanns sem sett var á vegna útbreiðslu COVID-19. Það sem helst vekur athygli hagfræðinga er að kolaverin taka mun meiri skell heldur en orkuver sem framleiða orku á umhverfisvænni hátt.
Ástæðan fyrir því að kolin eiga á brattan að sækja er einfaldlega jaðarkostnaður, segir í áðurnefndri umfjöllun BBC. Þegar búið er að ráðast í fjárfestingar í orkuverum er framleiðsla þeirra orkuvera sem framleiða sitt rafmagn með sólarorku, vindi eða vantsorku ódýrari heldur en þeirra sem þurfa að brenna jarðefnaeldsneyti. Þá hefur kostnaður við uppbyggingu orkuvera sem virkja endurnýjanlega orku lækkað á síðustu árum og getur oft á tíðum verið lægri heldur en uppbygging nýs kolavers.