Fyrsta tilfelli nýju kórónuveirunnar í Þýskalandi greindist 27. janúar. Þetta kom lækni sjúklingsins mjög á óvart. Sjúklingurinn, sem var eigandi bílapartasölu, hefði aðeins getað smitast af einum manni: Viðskiptafélaga frá Kína sem hafði komið í heimsókn. En sá hafði engin einkenni sýnt.
Læknirinn Camilla Rothe, átti því erfitt með að trúa þessu. Hún taldi á þessum tíma ómögulegt að einkennalaus viðskiptafélaginn hefði getað borið veiruna í þýska bílapartasalann. Nokkrum dögum eftir að hann snéri heim til Kína fór hann hins vegar að finna einkenni. Og greindist svo með veiruna.
Í ítarlegri fréttaskýringu New York Times, þar sem farið er yfir hvað var vitað um hegðun og eðli kórónuveirunnar og hvenær, kemur fram að í lok janúar töldu vísindamenn almennt enn að þessi nýja veira smitaðist aðeins frá fólki sem sýndi einkenni. Þá ályktun drógu þeir af því að hún var skyld veirunni sem olli SARS sautján árum áður en í hennar tilviki voru aðeins þeir sem voru með einkenni sýkingarinnar smitandi.
Rothe rifjar upp í samtali við New York Times að vísindamenn, sem höfðu mun meiri þekkingu en hún sjálf á kórónuveirum, höfðu á þessum tíma verið þess fullvissir að aðeins fólk með einkenni (hita, hósta o.s.frv.) gæti borið hina nýju veiru í aðra.
Rothe er smitsjúkdómalæknir á háskólasjúkrahúsinu í Munchen. Að henni læddist sú hugsun að ef vísindamennirnir hefðu rangt fyrir sér, ef viðvaranir yfirvalda um að fólk með einkenni ætti að halda sig heima, að nóg væri að mæla hita flugfarþega og þar fram eftir götunum, væru svo byggðar á orðum þessara vísindamanna, gætu afleiðingarnar orðið hamfarakenndar. Ef einkennalausir gætu smitað ætti jafnvel að biðja alla að ganga með grímur meðal almennings. Og setja miklar hömlur á ferðalög fólks.
Fyrst til vekja athygli á málinu
Læknirinn Rothe og hennar samstarfsmenn voru meðal þeirra fyrstu í heiminum sem vöruðu við því að nýja kórónuveiran gæti smitast frá einkennalausum. En lítið mark var tekið á þeim. Og jafnvel ekki þó að vísbendingar frá fleirum bentu til hins sama.
Vikum saman gáfu stjórnmálamenn og heilbrigðisyfirvöld ábendingum Rothe og félaga engan gaum. Á sama tíma var einkennalaust fólk, sem enga hugmynd hafði um að það væri smitað, að breiða veiruna út á ýmsum samkomum; í kirkjum, á fótboltaleikvöngum og á bar á skíðasvæði í Austurríki.
Í grein New York Times kemur fram að á viðtölum við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk í mörgum löndum megi sjá að í tvo örlagaríka mánuði afneituðu stjórnmálamenn og heilbrigðisyfirvöld á vesturlöndum niðurstöðum þýsku læknanna eða drógu verulega úr mikilvægi þeirra. Á það er bent að í staðinn hafi starfsmenn stofnana á borð við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina og Evrópsku smitsjúkdómstofnunina gefið út ráðleggingar, stundum misvísandi, um hið gagnstæða: Af einkennalausum stafaði lítil hætta.
Seinagangurinn getur átt sér ýmsar skýringar. Þær geta til dæmis falist í samkeppni milli vísindamanna eða því að niðurstöðurnar hafi ekki verið nægilega undirbyggðar svo að mark væri tekið á þeim. En ein skýringin, og sú sem margir hallast að, er sú að yfirvöld og stjórnmálamenn vissu að ef þetta væri raunin, að einkennalausir væru smitandi, þyrfti að grípa til mun róttækari aðgerða til að hægja á útbreiðslunni. Aðgerða sem myndu lama hagkerfi heimsins. WHO hafði verið gagnrýnd nokkuð harðlega í kjölfar SARS. Þá þótti stofnunin bregðast óþarflega hart við og að afleiðingarnar á efnahagslíf heimsins hafi verið meiri en ástæða var til. Margir segja WHO því hafa verið hikandi þegar COVID-19 spratt fram á sjónarsviðið.
Mannslífum fórnað?
Í grein New York Times segir að ómögulegt sé að meta hversu mörgum mannslífum hefði verið hægt að bjarga ef gripið hefði verið til harðra aðgerða strax og vitneskja um þessa hegðun veirunnar kom fram. Vitnað er í niðurstöður líkindarannsókna sem benda til að hægt hefði verið að bjarga þúsundum mannslífa. Þá er bent á að lönd á borð við Singapúr og Ástralíu hafi gengið betur en mörgum öðrum að halda faraldrinum í skefjum vegna þess að fljótt var gripið til umfangsmikillar sýnatöku, smitrakningar og ferðatakmarkanna.
Í dag er öllum orðið ljóst að fólk sem virðist heilbrigt en er engu að síður með veiruna, getur verið smitandi. Hins vegar er ekki vitað hversu stóran þátt slík smit hafa átt í útbreiðslu faraldursins. Rannsóknir á þessu sem gerðar hafa verið hingað til eru ekki samhljóða. Í þeim er ýmist talið að 30 prósent smita hafi borist frá einkennalausum eða jafnvel 60 prósent þeirra.
WHO lengi að taka við sér
Í byrjun mars var WHO enn að halda því fram að smit frá einkennalausum væru fágæt. En þá voru vísindamenn víða farnir að sjá allt annað blasa við. Evrópsk sóttvarnayfirvöld voru þó farin að hallast að þessu og sannfærðust loks um það í þeim mánuði. Það gerðu þau bandarísku líka í lok mars og endurskoðuðu t.d. tilmæli sín um notkun andlitsgríma.
WHO tók seinna við sér og enn er stofnunin að senda frá sér misvísandi skilaboð. Í grein New York Times er bent á að snemma í júní hafi einn yfirmanna stofnunarinnar endurtekið það sjónarmið sitt að smit frá einkennalausum væri „mjög sjaldgæft“. Læknar um allan heim mótmæltu þessu og gaf stofnunin síðar út að þessi orð hefðu verið á misskilningi byggð. Hins vegar hafa starfsmenn hennar á það bent að enn eigi eftir að skilja smitleiðirnar til fullnustu – hverjir smita helst og hvenær eftir að þeir sjálfir hafa sýkst.
Í dag hafa yfir tíu milljónir manna um heim allan greinst með veiruna. Það er mikið vanmat þar sem sýnatökur eru mjög misöflugar í hverju landi fyrir sig og ekki eru niðurstöður allra þeirra gefnar út opinberlega. Staðfest er að rétt tæplega hálf milljón manna hefur látist vegna COVID-19 á heimsvísu.
Enn fjölgar smitum hratt. Í gær greindust fleiri smit í Bandaríkjunum á einum degi en nokkru sinni fyrr. Sömu sögu er að segja frá Afganistan. Í fleiri löndum bárust fréttir af snöggri fjölgun smita í gær.
Hópsmit hafa nýverið brotist út í kjötvinnslustöð í Þýskalandi, í kirkju í Suður-Kóreu, á markaði í Peking og á sjúkrahúsi á Ítalíu – svo dæmi séu tekin. Öll urðu þau eftir að slakað var á takmörkunum á samkomum og ferðalögum íbúanna og eftir að yfirvöld lýstu því yfir að faraldurinn væri í rénun.
Margir óttast að önnur bylgja faraldurs COVID-19 sé í þann veginn að hefjast, skömmu eftir afléttingar takmarkanna sem hægðu á öllu efnahags- og félagslífi.