Aðilar sem fylgjast með fjármálamarkaði hafa sumir hverjir furðað sig á því að áfram sé verslað með hlutabréf í Icelandair Group, eftir að fyrirtækið greindi frá því að mögulega þyrfti það að óska eftir greiðslustöðvun ef samningaviðræður við ýmsa hagaðila ganga ekki að óskum.
Ekki verður þó lokað tímabundið fyrir viðskipti með bréf félagsins nema grunur liggi fyrir um ójafnræði þegar kemur að aðgangi að innherjaupplýsingum, samkvæmt skriflegu svari Kauphallar við fyrirspurn Kjarnans.
Þar segir að grunnviðmið hjá mörkuðum Nasdaq sé að hafa alltaf opið fyrir viðskipti, enda felist í því mikil fjárfestavernd. „Það er mikilvægt að fjárfestar eigi þess kost að stýra áhættu með kaupum og sölum, þrátt fyrir sviptingar í verðmyndun eða óvissuástand sem kann að vera uppi,“ segir í svari Kauphallarinnar.
Sama svar og í maí
Fjallað var um hið sama í Fréttablaðinu í maímánuði, þegar Icelandair hafði kynnt áform sín um að leita heimildar til þess að ráðast í hlutabréfaútboð í sumar og safna þar allt að 29 milljörðum króna.
Viðmælendum þess blaðs þótti þá, rétt eins og viðmælendum Kjarnans nú, skjóta skökku við að bréf félagsins hefðu ekki verið athugunarmerkt eða að ekki væri lokað fyrir viðskipti með þau tímabundið. Þá hafði Kauphöllin nærri orðrétt sama svar.
Samkvæmt viðskiptayfirliti Kauphallarinnar fyrir júnímánuð voru flest viðskipti með bréf Icelandair af öllum fyrirtækjunum sem skráð eru á markað hér á landi, alls 641 talsins. Velta með bréfin hefur þó verið lítil undanfarið.
Margt þarf að ganga upp á næstu vikum
Icelandair lýsti því yfir á mánudagsmorgun kl. 8:45 með tilkynningu til Kauphallar að ekki hefði enn tekist að ná samkomulagi við leigusala, Boeing og færsluhirði félagsins eins og stefnt hafði verið að. Því var ákveðið að fresta hlutafjárútboði félagsins fram í ágúst og reyna að áfram að ná samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins.
Í tilkynningunni sagði að félagið ynni nú með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbankanum, sem báðir eru í eigu íslenska ríkisins og eru stærstu innlendu kröfuhafar flugfélagsins, við útfærslu ríkisábyrgðar á láni til félagsins.
„Lánafyrirgreiðsla íslenskra stjórnvalda verður þó meðal annars háð samkomulagi við kröfuhafa og að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár,“ sagði í tilkynningunni.
Flugfélagið sagði að viðræður gætu skilað niðurstöðu fljótlega, ef þær héldu áfram á uppbyggilegum nótum, en ef svo færi að samningaviðræður skiluðu ekki tilætluðum árangri myndi félagið þurfa að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu án aðkomu íslenskra stjórnvalda, sem hafa veitt vilyrði fyrir lánalínum til flugfélagsins að því gefnu að allt annað í þessu púsli gangi upp.
Í tilkynningunni sagði að slíkt endurskipulagningarferli gæti tekið allt að tólf mánuði og að „á meðan á því stæði þyrfti félagið að fresta öllum greiðslum til fjármögnunaraðila félagsins.“