Síðasta sólarhring var tilkynnt um 41 dauðsföll úr COVID-19 í Svíþjóð. Samtals hafa því 5.411 látist úr sjúkdómnum í landinu. Tæplega 71 þúsund smit hafa greinst, þar af 947 síðasta sólarhringinn. Í heild hafa 2.444 þurft að leggjast inn á gjörgæslu vegna sjúkdómsins.
Anders Wallensten, aðstoðarsóttvarnalæknir Svíþjóðar, sagði í dag að alvarlega veikum fari nú fækkandi og að markmið yfirvalda sé að „fletja út kúrfuna“ – og það hafi verið planið allt frá upphafi – til að tryggja að heilbrigðiskerfið standist álagið. Og að nú hafi álagið minnkað.
Í dag voru kynntar uppfærðar reglur og almennar leiðbeiningar til veitingastaða, bara og kaffihúsa í Svíþjóð. Samkvæmt nýju reglunum skal vera að minnsta kosti eins metra fjarlægð milli hópa sem sækja þessa staði. Áður sagði í reglum að halda ætti „hæfilegri fjarlægð“ en nú hefur hún verið skilgreind í tölu.
Í dag fengu sveitarfélög einnig þá ábyrgð að sjá til þess að reglunum sé framfylgt. Þá hafa þau einnig vald til að loka stöðum sem ekki framfylgja gilandi reglum. Fjármagn frá ríkinu fylgir þessari auknu ábyrgð. Nýju fjarlægðarreglurnar taka gildi þann 7. júlí.
Á blaðamannafundi í dag, þar sem hið nýja fyrirkomulag var kynnt, sagði yfirmaður lýðheilsustofnunar Svíþjóðar að það væri svo á ábyrgð einstaklinga innan hvers hóps að gæta að sýkingavörnum. „Ef þú hittir einhver sem þú hefur ekki hitt lengi – haltu fjarlægð.“
Anders Wallensten sagði að í sumar ætti fólk að „eyða minni tíma“ með fólki sem það þekkir ekki fyrir til að draga úr hættu á frekari útbreiðslu sjúkdómsins. „Þú þarft ekki að kynnast nýju fólki í sumar.“
Rúmlega 10 milljónir manna búa í Svíþjóð. Faraldurinn hefur verið mun skæðari þar en á öðrum Norðurlöndum og í mörgum öðrum löndum Evrópu.
Sóttvarnayfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að gefa aðeins út tilmæli en setja ekki strangar umgengnisreglur þegar faraldurinn braust út. Þau hafi t.d. ekki sett á heimsóknarbann á hjúkrunarheimilum þegar farsóttin var að ná hæstu hæðum. Niðurstaðan virðist sú, að teknu tilliti til opinberra talna, að dauðsföll þar eru mun fleiri miðað við höfðatölu en á hinum Norðurlöndunum en engu að síður færri en í Bretlandi, á Spáni og Ítalíu þar sem gripið var til harðra aðgerða á borð við útgöngubönn.
Síðustu vikur hefur verið aukið mjög við sýnatökur í Svíþjóð og greindum tilfellum fjölgað samhliða. Alvarlega veikum hefur hins vegar á sama tíma farið fækkandi.