Ef sláturhús á Íslandi yrði óstarfhæft af einhverjum ástæðum yrði fyrsti kosturinn væntanlega alltaf sá að senda dýr til slátrunar í annað sláturhús, segir Kristín Silja Guðlaugsdóttir, sérgreinadýralæknir heilbrigðiseftirlits hjá Matvælastofnun (MAST).
Hópsmit af kórónuveirunni hafa komið upp meðal starfsmanna í fjölda sláturhúsa um allan heim, m.a. víðs vegar í Evrópu og Bandaríkjunum, með þeim afleiðingum að þurft hefur að loka þeim og drepa dýrin á bæjum þar sem þau eru alin. Oft er um risavaxin sláturhús að ræða þar sem tugum þúsunda svína og annarra dýra er slátrað á hverjum degi. Sérfræðingar hafa bent á að í slíkum verksmiðjum séu kjöraðstæður fyrir nýju kórónuveiruna: Þar er loftið kalt og rakt og starfsmenn standa þétt saman við störf sín.
Kristín Silja segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að ólíklegt sé að til þess myndi koma að aflífa þyrfti heilbrigð dýr hér á landi annars staðar en í sláturhúsi. Kæmi hins vegar upp sú staða er bændum heimilt að aflífa sín eigin dýr svo fremi sem það sé gert á „mannúðlegan hátt með viðurkenndum aflífunaraðferðum“. Einnig geta bændur að sögn Kristínar leitað til sjálfstætt starfandi dýralækna og óskað eftir aðstoð þeirra við aflífun dýra sinna.
„Af og til þarf að aflífa hópa dýra vegna sjúkdóma, svo sem alifugla vegna staðfests salmonellusmits í eldi eða sauðfé vegna riðuniðurskurðar,“ segir Kristín. „Slík aflífun fer alltaf fram samkvæmt leiðbeiningum Matvælastofnunar og undir eftirliti hennar“.
Viðurkenndum aflífunaraðferðum er lýst í I. viðauka við reglugerð 911/2012 um vernd dýra við aflífun. Að sögn Kristínar er heimilt að nota þær aðferðir sem þar er lýst við neyðaraflífun utan sláturhúsa. Hún bendir þó á að bændur hafi sjaldan aðra kosti en pinnabyssu til að aflífa stórgripi.
Þær aðferðir sem beita má við aflífun dýra eftir tegundum þeirra eru eftirfarandi:
- Tæki með pinna sem gengur inn í heilann. Þetta veldur alvarlegum og varanlegum skaða á heila af völdum höggs og innferðar pinna. Aðferðinni má beita á allar dýrategundir.
- Tæki með pinna sem gengur ekki inn í heilann. Þetta veldur alvarlegum skaða á heila af völdum höggs frá pinna sem gengur ekki inn í heilann. Þessa aðferð má aðeins nota á alifugla utan sláturhúss.
- Skotvopn með lausu skoti. Má nota á allar tegundir utan sláturhúsa.
- Mölun. Allt dýrið er malað tafarlaust. Aðferðinni má beita á kjúklinga allt að 72 klukkustunda gamla og óklakta unga í eggjum.
- Snúið úr hálslið. Þá er hálsinn teygður og undinn með vélrænum hætti eða með handafli, þannig að blóðþurrð verður í heila. Aðferðinni má beita á alifugla með lífþyngd sem er allt að 5 kg.
- Högg á hausinn. Fast og nákvæmt högg á hausinn sem veldur alvarlegum skaða á heila. Aðferðinni má beita á smágrísi, lömb, kiðlinga, loðdýr og alifugla með lífþyngd sem er allt að 5 kg.
- Deyfing með rafstraumi sem fer einungis í gegnum hausinn. Rafstraumur er látinn fara gegnum heilann og þannig kemur fram almenn flogaveikivirkni á heilariti. Allar tegundir.
- Deyfing með rafstraumi sem er látinn fara gegnum dýrið frá hausi til skrokks. Rafstraumur er látinn fara gegnum skrokkinn og þannig kemur fram almenn flogaveikivirkni á heilariti samtímis því að hjartað flöktir eða stöðvast. Aðferðinni má beita á allar tegundir.
- Vatnsbað. Rafstraumur er látinn fara með vatnsbaði gegnum allan skrokkinn og þannig kemur fram almenn flogaveikivirkni á heilariti og hjartað kann að flökta eða stöðvast. Má beita á alifugla.
- Koltvísýringur í miklum styrk. Dýr, sem eru með meðvitund, eru beint eða smám saman látin verða fyrir váhrifum af gasblöndu sem inniheldur meira en 40 prósent af koltvísýringi. Þessari aðferð má beita í gryfjum, göngum, gámum eða byggingum sem áður hafa verið gerðar loftþéttar. Aðferðinni má beita við aðrar aðstæður en slátrun að því er varðar alifugla og svín.
- Koltvísýringur í tveimur áföngum. Dýr, sem eru með meðvitund, eru fyrst látin verða fyrir váhrifum af gasblöndu sem inniheldur allt að 40 prósent af koltvísýringi og því næst, eftir að dýrin hafa misst meðvitund, af gasblöndu með meiri styrk koltvísýrings. Má beita á alifugla.
- Koltvísýringur ásamt óhvarfgjörnum gastegundum. Dýr, sem eru með meðvitund, eru látin verða fyrir váhrifum af gasblöndu, sem inniheldur allt að 40 prósent af koltvísýringi ásamt óhvarfgjörnum gastegundum, sem veldur súrefnisskorti. Þessari aðferð má beita í gryfjum, sekkjum, göngum, gámum eða byggingum sem áður hafa verið gerðar loftþéttar, á alifugla og svín.
- Óhvarfgjarnar gastegundir. Dýr, sem eru með meðvitund, eru beint eða smám saman látin verða fyrir váhrifum af blöndu óhvarfgjarnra gastegunda, t.d. argons eða köfnunarefnis, sem veldur súrefnisskorti. Þessari aðferð má beita í gryfjum, sekkjum, göngum, gámum eða byggingum sem áður hafa verið gerðar loftþéttar á svín og alifugla.
- Hreinn kolsýringur. Dýr, sem eru með meðvitund, eru látin verða fyrir váhrifum af gasblöndu sem inniheldur meira en 4 prósent af kolsýringi. Aðferðinni má beita á Loðdýr, alifugla og smágrísi.
- Kolsýringur ásamt öðrum gastegundum. Dýr, sem eru með meðvitund, eru látin verða fyrir váhrifum af gasblöndu sem inniheldur meira en 1 prósent af kolsýringi ásamt öðrum eitruðum gastegundum. Má beita á loðdýr, alifugla og smágrísi.
Hvað varðar sláturhúsin sjálf, sem fylgja þurfa ströngum skilyrðum við slátrun dýra, segir Kristín að þau starfi hvert og eitt eftir eigin viðbragðsáætlun. Í slíkri áætlun er skipulagt hvernig sláturhúsið bregst við ef upp kemur smit hjá starfsmanni hússins, þannig að tryggja megi að starfsemin skerðist sem minnst.
Jafnframt hefur Matvælastofnun sína eigin viðbragðsáætlun. Þar er meðal annars gerð áætlun um hvernig brugðist er við forfallist eftirlitsdýralæknir í sláturhúsi vegna sýkingar af COVID-19. Að sögn Kristínar hefur ekki komið til þess að grípa þyrfti til þess að finna staðgengil fyrir eftirlitsdýralækni í sláturhúsi í faraldrinum hingað til.