Líklegra þykir að fá ný kórónuveirusmit valdi því að alvarlegum tilfellum hefur fækkað heldur en að veiran hafi stökkbreyst og sé orðin veikari. Þetta kemur fram í nýju svari á Vísindavef Háskóla Íslands þar sem skoðað er hvort að kórónuveiran sé að missa styrk sinn og verða minna sýkingarhæf.
Í svarinu er meðal annars vitnað í Þórólf Guðnason sóttvarnalækni sem sagði á blaðamannafundi þann 25. maí síðastliðinn að það sem helst einkenndi þá sem greinst hefðu af veirunni dagana á undan væri það að þeir einstaklingar væru ekki mikið veikir. Þegar þarna var komið við sögu hafði nýgreindum smitum fækkað allverulega.
„Það gæti verið að þetta séu einstaklingar sem hafi verið búnir með sín veikindi. Það gæti líka verið að það sé einhver þróttur að fara úr veirunni, hugsanlega. Allavega er tilhneigingin sú að veikindin hafa minnkað eftir því sem liðið hefur frá 28. febrúar. Það gæti gefið okkur hugsanlega vísbendingu um það að veiran sé ekki eins ágeng og slæm og hún var. En tíminn verður að leiða það í ljós,“ sagði Þórólfur á áðurnefndum blaðamannafundi.
Fjöldi greindra smita fækkað verulega
En þá að spurningunni sem leitast er við að svara á Vísindavefnum; Er veiran að veikjast? Í svari Arnars Pálssonar, erfðafræðings og prófessors í lífupplýsingafræði við HÍ, eru gefnar sex mögulegar ástæður fyrir því að veiran kunni að vera að veikjast eða hvers vegna svo kann að virðast.
Í fyrsta lagi segir Arnar að það sé mögulegt að tíðni alvarlegra smita sé jafnhá og áður, sem þýðir að veiran sé ekki orðin veikari. Líkurnar á alvarlegum tilfellum séu litlar vegna þess að smit eru orðin svo fá. Samkvæmt þessum möguleika er veiran þar af leiðandi ekki veikari.
Breytt hegðun gæti hafa skipt máli
Í öðru lagi gæti breytt hegðun fólks mögulega hafa leitt til mildari einkenna. Þeir sem viðkvæmir eru fyrir veirunni sem og eldra fólk hafi haldið sig til hlés og veiran því frekar borist milli yngra hraustara fólks.
Þriðja möguleikinn fyrir mildari einkennum hverfist einnig um breytta hegðun fólks. Vera má að vegna varúðarráðstafana hafi færri veiruagnir borist í einstaklinga, sem gæti hafa orðið til þess að framvinda sýkingarinnar hafi verið hægari og ónæmiskerfi þeirra sem hafi sýkst hafi haft meiri tíma til að læra á veiruna og brjóta sýkinguna á bak aftur.
Aukin þekking gæti hafa mildað áhrifin
Aukin þekking heilbrigðisfólks á eðli sjúkdómsins er svo fjórði möguleikinn sem tekinn er til skoðunar. Aukin þekking og aukinn hraði í greiningum gæti hafa orðið til þess að fleiri alvarlegum tilfellum hafi verið afstýrt.
Í fimmta lagi gæti árstíðarbreyting haft áhrif á veiruna. Venjulega missir árleg inflúensa þrótt sinn þegar sumarið gengur í garð og það sama gæti verið uppi á teningnum varðandi kórónuveiruna. Þó kemur fram í svarinu að engar vísbendingar eru um áhrif árstíða eða umhverfishita á veiruna sem veldur COVID-19. Þá segir í svarinu að líklegra sé að fólk fari í auknum mæli út af heimilum og í almenningsrými með hækkandi sól sem eykur smithættu vegna mannmergðar.
Líklegra að veiran mildist frekar en styrkist með tímanum
Í sjötta og síðasta lagi gæti verið að veiran hafi þróast og orðið mildari hér á landi. „Slíkt fæli í sér að stökkbreytingar sem draga úr alvarleika einkenna vegna smits hafi aukist í stofni veirunnar, og að þeim völdum lækki dánartíðni. Þetta er talin líkleg framvinda, en frekar sé horft til framtíðar en að þetta hafi gerst á þeim fáu mánuðum sem hafa liðið frá því að veiran barst í menn. Þótt veiran fjölgi sér hratt, er ekki búist við að eiginleikar hennar þróist á hálfi ári,“ segir í svarinu.
Talað hefur verið um þann möguleika að veiran stökkbreytist í hina áttina, sem leiðir til þess að hún verði hættulegri, smitist betur eða valdi alvarlegri einkennum. Samkvæmt svarinu er það talið ólíklegt.
„Flestar stökkbreytingar á veirunni eru skaðlegar fyrir hana, og valda veikluðum tilbrigðum. Ólíklegt er að þau smiti frekar en „eðlileg“ afbrigði hennar. Að endingu er mögulegt að einhver „veikluð“ afbrigði veirunnar smitist milli manna og valdi mildari einkennum,“ segir í svarinu. Sá möguleiki að veiran hafi þróast í mildara afbrigði hérlendis er þó talinn ólíkleg skýring. Líklegra sé að mikil fækkun tilfella gefi þá mynd líkt og áður segir.