Rannsókn lögreglu á bruna á Bræðraborgarstíg miðar vel og hafa kennsl einstaklinganna þriggja sem létust í brunanum verið staðfest af kennslanefnd Ríkislögreglustjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu í dag.
Í henni segir að þau sem létust hafi öll verið pólskir ríkisborgarar sem störfuðu hér á landi.
„En ekki verða gefin upp nöfn þeirra að ósk aðstandenda. Einn þeirra sem slasaðist í brunanum er enn á gjörgæslu. Lögregla getur ekki tjáð sig frekar um framvindu rannsóknarinnar að svo stöddu,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Krefst þess að borin sé virðing fyrir lífi, heilsu og öryggi alls verkafólks
Verkalýðsfélögin hafa mörg hver mótmælt bágum aðstæðum erlends verkafólks hér á landi í kjölfar brunans. Alþýðusamband Íslands kallaði til að mynda eftir ítarlegri rannsókn á aðdraganda og orsökum brunans en samkvæmt fréttum voru 73 einstaklingar með skráð lögheimili í húsinu og langstærstur hluti þeirra var erlent fólk.
Efling krafðist þess að félagsmálaráðherra og ríkisstjórnin efndi tafarlaust loforð um hertar aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, þar með talið loforð um sektarheimildir vegna kjarasamningsbrota og önnur viðurlög.
Efling krafðist þess enn fremur að allar stofnanir hins opinbera sem fara með eftirlit varðandi öryggi og heilsu borgaranna sýndu tilætlaða árvekni og tækju eðlilegt frumkvæði að íhlutun þegar við á, en sýndu ekki af sér vanrækslu og sinnuleysi þegar láglaunafólk eða fólk af erlendum uppruna ætti í hlut. Efling krafðist þess að borin væri eðlileg virðing fyrir lífi, heilsu og öryggi alls verkafólks og að bundinn yrði endir á kerfisbundna mismunun gegn verkafólki af erlendum uppruna.