Flóðavarnakerfi Feneyinga var prófað nú í vikunni en nokkrir mánuðir eru síðan eitt mesta flóð í sögu borgarinnar olli þar miklum skemmdum. Markmið prófananna var að sýna íbúum Feneyja styrk kerfisins að því er fram kemur í frétt Reuters en flóðavarnakerfinu er ætlað að hindra flæði sjávar úr Adríahafi inn í Feneyjalónið. Framkvæmdin er mörgum árum á eftir áætlun og kostnaðurinn er orðinn mun meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Sögu flóðavarnakerfisins má rekja aftur til ársins 1966. Eftir verstu flóð sem gengið hafa yfir borgina fólu ítölsk yfirvöld verkfræðingum að hanna lausn sem myndi verja borgina fyrir flóðum. Vinna hófst við gerð flóðavarnakerfisins árið 2003 og átti það að vera tilbúið árið 2011.
Vandamálin hafa hrúgast upp í kringum framkvæmdina. Spilling, umframkeyrsla og seinkanir á seinkanir ofan. Upphaflega var gert ráð fyrir að framkvæmdin myndi kosta 1,6 milljarða evra en nú er áætlað að kostnaður muni nema 5,5 milljörðum evra. Spillingin í kringum framkvæmdina er slík að í tengslum við hana hafa tugir embættismanna verið handteknir samkvæmt frétt BBC.
Flóðavarnakerfið virkar þannig að þegar von er á að flóð fari yfir fyrir fram ákveðna hæð þá lokar kerfið fyrir inngönguleiðir sjávar úr Adríahafi inn í Feneyjalónið. Upp úr hafinu rísa 78 flekar sem mynda stíflur og loka lóninu þannig að yfirborð lónsins verður ekki það hátt að það valdi flóðum. Nú er gert ráð fyrir að stíflurnar verði tilbúnar á næsta ári.
Síðasta stórflóð gekk yfir borgina í nóvember í fyrra en það var það næsthæsta í sögu borgarinnar. Einungis flóðið sem gekk yfir borgina árið 1966 var hærra, flóðið sem kom framkvæmdinni af stað.
Flóðin í Feneyjum eru árstíðabundin og því geta íbúar búist við flóðum allt frá hausti og fram á vor. Hægt er að fylgjast með flóðaspá líkt og veðurspá og þannig gert ráðstafanir ef þarf. Sú spá nær aðeins nokkra daga fram í tímann og því ómögulegt að segja til um hvort næsta stórflóð gangi yfir borgina í haust eða eftir 20 ár.