Núna er það orkusamningur við Landsvirkjun sem gæti valdið því að Rio Tinto, sem rekur álverið í Straumsvík, ákveði að loka álverinu. Áður voru verkföll sögð ógna framtíð álversins. Á einum tímapunkti var það kosning um fyrirhugaða stækkun álversins sem ræði úrslitum um framtíð þess. Kjarninn tók saman nokkur tilvik þar sem framtíð álversins í Straumsvík var, að mati stjórnenda og eigenda, í höndum annarra en þeirra sjálfra.
Mál dagsins í dag
Í febrúar á þessu ári sendi Rio Tinto frá sér fréttatilkynningu þar sem sagt var frá því að félagið leitaði allra leiða til þess að gera álverið arðbært og samkeppnishæft á alþjóðamörkuðum, meðal annars með samtali við stjórnvöld og Landsvirkjun. Þá var gert ráð fyrir því að rekstur álversins yrði áfram óarðbær til skemmri og meðallangs tíma sökum ósamkeppnishæfs orkuverðs og lágs verðs á áli í sögulegu samhengi, að því er segir í tilkynningunni.
Nú, tæpu hálfu ári síðar, hefur Rio Tinto sent formlega kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að félagið telur Landsvirkjun hafa yfirburðastöðu gagnvart álverinu. Láti Landsvirkjun ekki af „skaðlegri háttsemi sinni“ muni ISAL segja upp orkusamningi sínum við Landsvirkjun og loka álverinu.
Staðið í vegi fyrir verkföllum
Miklar deilur stóðu yfir árið 2015 um kjör starfsmanna álversins og í nóvember það ár var deilan komin í algjöran hnút. Starfsmenn voru á leið í verkfall sem hefjast átti 2. desember. Fari starfsmenn álversins í verkfall þurfa þeir að halda vinnu sinni áfram í tvær vikur frá því að verkfall hefst. Það er gert til þess að hægt sé að slökkva á kerjum álversins til að lágmarka það tjón sem verður þegar beinlínis er slökkt á álverinu.
Skömmu áður en verkfall átti að hefjast sagði Ólafur Teitur Guðnason, þáverandi talsmaður Rio Tinto á Íslandi, í samtali við Morgunblaðið að ekki væri víst að kveikt yrði aftur á kerjum álversins ef til þess kæmi að slökkt yrði á þeim.
Þetta varð til þess að verkfallinu var aflýst. Gylfi Ingvarsson, sem var í forsvari fyrir starfsmenn álversins, sagði stjórnendur álversins hafa stillt starfsmönnum þess upp við vegg. Það hafi þeir gert með því að segja afdrif kjarabaráttunnar ráðast hjá stjórnendum Rio Tinto í útlöndum ef til verkfalls hefði komið. Margir túlkuðu þau skilaboð þannig að álverinu gæti lokað til frambúðar ef til framleiðslustopps kæmi.
Svipuðum hótunum var beitt í kjaradeilu í Straumsvík í kjaradeilu sem hófst haustið 1991. „Við höfum síðan í haust staðið í samningaþófi við Ísal. Það er alveg sama um hvað er rætt, þeir hóta alltaf að loka álverinu og flytja starfsemina úr landi, ef við göngum ekki að öllum kröfum þeirra. Þetta er óþolandi. Við kunnum ekki við þessar sífelldu hótanir og semjum ekki undir slíkum þrýstingi,“ sagði Sigurður T. Sigurðsson, þáverandi formaður Verkamannafélagsins Hlífar í Hafnarfirði, í samtali við DV í maí 1992.
Stækkun „forsenda þess að álverið geti haldið velli“
Árið 1999 hófst undirbúningur fyrir stækkun álversins í Straumsvík. Álverið hafði keypt lóð af Hafnarfirði undir stækkaða verksmiðju, framkvæmdin hafði staðist umhverfismat og starfsleyfi hafði verið veitt. En stækkunin útheimti breytingu á deiliskipulagi og um nýja tillögu að deiluskipilagi kusu Hafnfirðingar um árið 2007.
Á þessum tíma átti Alcan álverið í Straumsvík, en Alcan rann síðar inn í Rio Tinto. Alcan réðst í mikið kynningarstarf á stækkuninni. Byggja átti tvo nýja kerskála, til viðbótar við þá þrjá sem fyrir voru, og framleiðslugetan átti að fara úr 180 þúsund tonnum af áli á ári upp í 460 þúsund tonn. „Stækkun álversins í Straumsvík er forsenda þess að fyrirtækið geti haldið velli í samkeppni við önnur álver um allan heim á næstu áratugum,“ voru ein af rökum Alcan fyrir stækkun álvers.
Á Alþingi körpuðu um málið þeir Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, og Ögmundur Jónasson, þáverandi þingmaður Vinstri grænna, í mars 2006. „Auðvitað er í því fólgin hótun ef stjórnvöldum er gerð grein fyrir því að til álita komi að loka álverinu í Straumsvík ef ekki verði farið að vilja álfyrirtækisins.“ sagði Ögmundur.
Halldór svaraði því til að hann hefði átt fund með einum af forstjórum Alcan. Í samtali þeirra hefðu engar hótanir verið settar fram né heldur dagsetning lokunar. „En það liggur í hlutarins eðli að ef fyrirtæki geta ekki þróast miðað við framtíðarkröfur og breyttar aðstæður þá hefur það áhrif á þau,“ sagði hann enn fremur um málið.
Í samtali við Fréttablaðið í janúar 2007 sagði Hrannar Pétursson, þáverandi upplýsinga fulltrúi Alcan á Íslandi, að ef stækkunin yrði ekki samþykkt í íbúakosningu þá væri það upphafið að endi álversins. „Það getur vel farið svo að álverinu verði lokað ef það verður ekki stækkað. Við viljum stækka það til að tryggja samkeppnishæfni þess til lengri tíma á alþjóðlegum markaði, þannig að álverið geti verið hér í að minnsta kosti 40 ár í viðbót,“ sagði Hrannar í samtali við blaðið.
Hafnfirðingar sýndu, eðli málsins samkvæmt, málinu mikla athygli en búist var við því að kosningin yrði nokkuð jöfn. Kosning fór fram þann 31. mars og var stækkuninni hafnað með mjög tæpum meirihluta. Á móti voru 6.382 en 6.294 voru með. Einungis 88 atkvæði skildu fylkingarnar að.