Heinaste, Geysir og Saga hétu verksmiðjutogararnir þrír sem Samherjasamstæðan hefur notað í starfsemi sinni í Namibíu á undanförnum árum. Nú heita þessi skip hins vegar Heinaste, Galleon og Vasiliy Filippov og eru öll skráð með heimahöfn í Belísborg í mið-ameríska smáríkinu Belís, fyrir botni Karíbahafs.
Heinaste, eina Samherjaskipið sem enn er staðsett í Namibíu, er því ekki lengur undir namibískum fána, en samkvæmt skipaskráningarsíðunni Marine Traffic er skipið nú skráð í Belís. Skipið var kyrrsett af namibískum yfirvöldum vegna ólöglegra veiða seint á síðasta ári og íslenskur skipstjóri þess settur í farbann.
Farbanni skipstjórans lauk í byrjun febrúar með um það bil átta milljóna króna sektargreiðslu og kyrrsetningunni var sömuleiðinn aflétt með dómsúrskurði, en togarinn var síðan kyrrsettur á ný 7. febrúar.
Kjarninn greindi frá því þá að síðari kyrrsetningin væri á grundvelli laga um skipulagða glæpastarfsemi, en ekki vegna brota á fiskveiðilöggjöfinni eins og í fyrra skiptið. Skipið er staðsett við bryggju í Walvis Bay í Namibíu.
„Við teljum að endurnýjuð kyrrsetning skipsins standist ekki namibísk lög og við munum grípa til ráðstafana til að hnekkja henni fyrir namibískum dómstólum ef nauðsyn krefur,“ sagði Björgólfur Jóhannsson starfandi forstjóri Samherja í yfirlýsingu á vef sjávarútvegsfyrirtækisins 10. febrúar, en síðan hefur lítið heyrst af stöðu málsins.
Ekkert hefur orðið af áformum Samherja um að selja skipið eða leigja það áfram til namibískra aðila sem gætu nýtt skipið til útgerðar við strendur Namibíu, eins og fyrirtækið hafði lýst yfir að það vildi gera.
Skipin sem sigldu á brott komin með ný nöfn
Heinaste heldur sínu nafni og plássi við höfnina í Walvis Bay, en hið sama á ekki við um Sögu og Geysi, hin skipin í eigu félaga Samherjasamstæðunnar sem áður fiskuðu við strendur Namibíu.
Þau sigldu á brott frá landinu í lok janúar og byrjun febrúar, að því er virðist í nokkrum flýti, en namibískir fjölmiðlar greindu frá því á þeim tíma að namibíska spillingarlögreglan hefði lagt til við þarlend stjórnvöld að togurunum yrði ekki leyft að sigla úr landi án þess að lögreglu yrði gert viðvart.
Saga (Vasiliy Filippov) enn á Kanarí
Fjallað var um það að sjómennirnir á Sögu, alls um 120 talsins, hefðu fengið sms-skilaboð á síðustu dögum janúarmánaðar um að sækja eigur sínar um borð í togarann án tafar, þar sem Saga væri á leiðinni í slipp á Kanaríeyjum, en í yfirlýsingu á vef Samherja 6. febrúar sagði að viðhaldsvinnan hefði staðið til lengi.
Á Kanaríeyjum, nánar tiltekið í Las Palmas, er skipið enn. Það heitir reyndar ekki lengur Saga, heldur Vasiliy Filippov. Það er heldur ekki lengur skráð í Namibíu, heldur siglir nú undir belískum fána. Ljóst er samkvæmt upplýsingum á vef Marine Traffic að stutt er síðan að það breyttist.
Geysir (Galleon) við veiðar úti fyrir Máritaníu
Namibískir fjölmiðlar sögðu Geysi hafa siglt skyndilega úr lögsögu landsins 2. febrúar, með þau skilaboð til um það bil 100 áhafnarmeðlima að skipið kæmi til baka þegar það fengi úthlutað nýjum kvóta í namibískri lögsögu.
Þessa dagana er Geysir, sem nú heitir reyndar Galleon, við veiðar út af vesturströnd Afríkuríkisins Máritaníu. Skipið hefur siglt undir belískum fána undanfarin ár og engin breyting hefur orðið þar á, samkvæmt vef Marine Traffic.
Kjarninn hefur sent fyrirspurn á Samherja um þessar breytingar á nöfnum og skráningu skipanna.