Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, undirbýr nú ásamt lögmönnum sínum varnir í máli sem hann telur að geti verið höfðað á hendur honum vegna ummæla sem hann sendir frá sér í síðustu viku.
Ummælin lét Ragnar falla í viðtali við Fréttablaðið síðastliðinn fimmtudag. Þar sagði Ragnar að margt benti til þess að Halldór Benjamín Þorbergsson og Davíð Þorláksson, starfsmenn Samtaka atvinnulífsins, hefðu beitt sér fyrir því að lífeyrissjóðir hafi sett fjármagn í endurfjármögnun Lindarvatns ehf. Félagið sér um uppbyggingu hótels á Landssímareit við Austurvöll. Icelandair heldur á helmingshlut í félaginu en Dalsnes ehf. á hinn helminginn.
Um helgina birtist yfirlýsing frá þeim Halldóri Benjamín og Davíð á vef Samtaka atvinnulífsins þar sem þeir óska þess að fullyrðingar Ragnars verði dregnar til baka og að hann biðji hlutaðeigandi afsökunar á ummælunum, annars sé óhjákvæmilegt að þau sem hafa orðið fyrir „órökstuddum dylgjum“ Ragnars íhugi réttarstöðu sína. Þá segir í yfirlýsingu þeirra Halldórs og Davíðs að það sé skýrt brot á landslögum að „ásaka saklaust fólk um svo alvarlega háttsemi sem hann hefur nú gert.“
Von er á yfirlýsingu í dag eða á morgun
„Ég geri alltaf ráð fyrir hinu versta og ég hræðist það ekki. Við erum að undirbúa varnir í málinu, eðlilega. Ef einhver hótar þér málsókn þá ætlum við ekki bara að bíða eftir því að hún berist. Við erum að undirbúa varnir okkar í málinu.“ segir Ragnar Þór í samtali við Kjarnann.
Spurður að því hvort hann geri ráð fyrir að málið vindi upp á sig svarar Ragnar játandi. Von sé á yfirlýsingu frá Ragnari og hans lögmönnum í dag eða á morgun sem svari yfirlýsingu Halldórs Benjamíns og Davíðs. Þá segir hann nýjar upplýsingar um málið koma fram í yfirlýsingunni.
„Komið þið bara“
Ragnar segir að hann hafi fyrir löngu tekið ákvörðun um að ekki væri hægt að þagga niður í honum með hótunum. „Þetta er bara eitthvað sem ég tók ákvörðun um fyrir löngu, löngu síðan. Það hefur auðveldað mér í sjálfu sér mjög að taka þessa slagi. En svona mótlæti hefur eflt mig alveg gífurlega. Ef einhver sparkar í mig þá sparka ég þrisvar á móti.“
Í yfirlýsingunni sem von er á komi fram nýjar upplýsingar um málið, líkt og áður segir. „Síðan þegar við grípum til varna í málinu, verði það höfðað, þá höfum við frekari upplýsingar sem snúa að mun alvarlegri hlutum heldur en ég hef verið að benda á. Þannig að ég er ekki hræddur, hræðist ekki þessa menn eða hótanir þeirra, ég segi: Komið þið bara.“