Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, gerði smitskömm að umræðuefni í lokaorðum sínum á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag. „Sökudólgurinn í þessu verkefni er veiran, ekki fólkið. Það ætlar sér enginn að veikjast, það ætlar sér enginn að smita aðra og baráttan sem við stöndum í er við veiruna en hún á ekki að standa á milli okkar allra,“ sagði Víðir á fundinum.
Hann nýtti einnig tækifærið til að minna á einstaklingsbundnar smitvarnir. Ef fólk er með einkenni, þó þau séu ekki nema smávægileg, ætti það að fara í sýnatöku og halda sig heima við. Hann sagði að fólk ætti hvorki að heilsast með handabandi eða faðmast. Þá beindi hann þeim tilmælum til fólks í áhættuhópum að forðast mannfjölda.
„Við þurfum að vera umburðarlynd, við þurfum að vera skilningsrík, við þurfum að vera góð hvert við annað. Þetta verkefni verður áfram í okkar höndum,“ voru lokaorð Víðs á fundinum í dag en ásamt honum fóru Alma D. Möller, landlæknir og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir yfir stöðu mála.
Fá smit í samfélaginu eins og er
Þórólfur hóf fundinn á að fara yfir töluleg gögn. Í gær voru um 1.200 sýni tekin á landamærunum en alls komu 3.800 farþegar til landsins. Af þeim sýnum bíður eitt eftir mótefnamælingu. Frá 15. Júní hafa tæplega 100 þúsund farþegar komið til landsins og um 63 þúsund sýni verið tekin á landamærunum. Úr landamæraskimun hafa alls 25 einstaklingar greinst með COVID-19 og af þeim voru tíu einstaklingar búsettir á Íslandi.
Varðandi innanlandssmit þá greindust sjö smitaðir í gær. 58 virk smit eru í samfélaginu og 454 í sóttkví. Íslensk erfðagreining hefur skimað um 1900 einstaklinga í sínum skimunum sem hófust 29. júlí. Tveir hafa greinst jákvæðir í þeim skimunum. Það segir Þórólfur benda til þess að fá smit séu í samfélaginu eins og tölurnar líta út núna.
Minnir fólk á að virða heimkomusmitgát
Alma minnti á að hertar takmarkanir eru ekki settar á af ástæðulausu. „Nú þegar veiran er aftur komin á kreik og við höfum öll þurft að taka okkur á og sæta þessum hertu ráðstöfunum, þá er hollt að við minnum okkur á hvers vegna við erum að þessu. Það er af því að þessi veira er skæð. Við höfum séð erlendis hvers hún er megnug ef að lítið er að gert. Þar hefur fjöldi fólks veikst þannig að heilbrigðiskerfið hafi ekki undan,“ sagði Alma.
Hún sagði skimanir á landamærum hafa tekist vel en þó væri eitt og annað sem þyrfti að herða á. Hún sagði það mjög mikilvægt að fólk haldi sig algjörlega til hlés þar til að neikvætt svar úr sýnatöku hefur borist með sms skilaboðum eða þangað til að 24 klukkustundir eru liðnar frá sýnatöku. „Við biðlum til allra, meðal annars aðila í ferðaþjónustu að þessi mikilvæga regla er virt.“
Þá bað hún fólk sem er á leið í heimkomusmitgát um að virða reglur úrræðisins í hvívetna, leiðbeiningar um heimkomusmitgát megi finna á landlaeknir.is og covid.is. „Þar viljum við sérstaklega biðla til atvinnurekenda að heimkomusmitgátin sé virt. Það er ekki fyrr en seinna sýnið er komið neikvætt að heimkomusmitgát lýkur,“ sagði Alma.