Helgi Seljan, fréttamaður á RÚV, og Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þau hafna ásökunum sem settar eru fram í nýju myndbandi frá Samherja. „Í stuttu máli er ekkert hæft í þeim ásökunum sem Samherji hefur sett fram. Markmiðið með þessum drullumokstri er að sverta mannorð öflugasta rannsóknarblaðamanns landsins og hrella fjölmiðla,“ segir í yfirlýsingunni sem birt var á Facebook-síðu Þóru.
Auk þess hafnar RÚV því í yfirlýsingu sem stofnunin sendi frá sér fyrr í dag að Helgi hafi falsað gögn við gerð Kastljósþáttar um málefni Samherja. „Það er líklega einsdæmi að stórfyrirtæki leggi í persónulega herferð gegn blaðamanni með áratugareynslu. Þessi grófa árás þjónar þeim eina tilgangi að skaða mannorð fréttamanns RÚV, sem hefur hvorki falsað gögn né „átt við þau“ og trúverðugleika fréttastofunnar,“ segir í yfirlýsingu RÚV sem undirrituð er af Stefáni Eiríkssyni, útvarpsstjóra, og Rakel Þorbergsdóttur, fréttastjóra RÚV.
Skýrslan sem aldrei var gerð
Fyrr í dag birti Samherji á YouTube rás sinni heimildarþátt sem ber heitið Skýrslan sem aldrei var gerð. Þættinum, sem framleiddur er af fyrirtækinu, er ætlað að varpa nýju ljósi á Seðlabankamálið svokallaða sem fyrirtækið segir að hafi hafist í kjölfar sýningar Kastljósþáttarins.
Í þættinum var sagt frá meintri sölu Samherja á karfa á undirverði til dótturfélaga sinna erlendis. Í lýsingu á heimlidarþættinum er umfjöllun Kastljóss sögð byggjast á skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs sem Samherji segir að aldrei hafi verið unnin. „Nú er komið í ljós að skýrslan var aldrei unnin af Verðlagsstofu skiptaverðs sem hefur staðfest það í bréfi til Samherja,“ segir í áðurnefndri lýsingu myndbandsins.
Leynileg hljóðritun Jóns Óttars
Leynileg hljóðritun frá fundi Jóns Óttars Ólafssonar og Helga Seljan er birt í þættinum. Helgi vann áðurnefnda umfjöllun Kastljóss og Jón Óttar, sem er fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, hefur starfað fyrir Samherja við innanhússrannsókn á málefnum félagsins. Í myndbandinu er því haldið fram að Helgi Seljan hafi átt við meinta skýrslu frá Verðlagsstofu skiptaverðs. „Gögnin voru þannig að, þú veist, ég var búinn að þurfa að eiga við sko, hérna, skýrsluna,“ segir Helgi á upptökunni sem spiluð er í þættinum.
„Ef það reynist rétt að Helgi Seljan hafi átt við einhver gögn eða einhverjar skýrslur. Þá er það auðvitað bara grafalvarlegur hlutur. Að ef hann er að fara með slíkt skjal á fund stjórnvalds sem hefur valdheimildir og er að bera aðila sökum, raunverulega, um að hafa framið refsiverðan verknað. Þá er hann sjálfur að gerast sekur um refsiverðan verknað,“ segir Garðar Gíslason, lögmaður Samherja í Samherjamálinu um upptökuna í heimildarþættinum.
Síðar í myndbandinu segir Jón Óttar frá því að Samherji hafi fengið bréf frá innri skoðun Verðlagsstofnunar þar sem sagt er frá því að ekkert bendi til þess að skýrslan hafi verið unnin.
Skjalið unnið af þáverandi forstjóra Verðlagsstofu
Þetta segir Helgi Seljan að sé rangt, en viðbrögð hans við myndbandinu voru birt í áðurnefndri Facebook-færslu Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks. Hann segir umrætt skjal hafa verið gert af þáverandi forstjóra Verðlagsstofu skiptaverðs og það lagt fram í Úrskurðarnefnd útvegsmanna og sjómanna.
Hann segir það rangt og einkar bíræfið að halda því fram að skjalið hafi verið falsað. „Sundurklippt ummæli um að átt hafi verið við skjalið, vísa eingöngu til þess að áður en það var birt voru persónugreinanlegar upplýsingar, sem hefðu getað vísað á heimildarmann, afmáðar af því. Það að snúið sé út úr því með þeim hætti sem gert er, segir alla söguna um raunverulegan tilgang þessarar myndbandagerðar Þorsteins Más og félaga,“ segir Helgi.
Yfirlýsing Þóru Arnórsdóttur og Helga Seljan má lesa hér fyrir neðan:
Í dag voru sett ný viðmið í árásum stórfyrirtækis á fjölmiðla og einstaka fréttamenn. Í stuttu máli er ekkert hæft í...
Posted by Thora Arnorsdottir on Tuesday, August 11, 2020