Í byrjun vikunnar greindust fjórir í sömu fjölskyldu í Auckland, stærstu borg Nýja-Sjálands, með veiruna. Þá höfðu liðið meira en þrír mánuðir án nokkurs smits í landinu. Í dag hafa svo greinst þrettán tilfelli til viðbótar. Góðu fréttirnar eru þær að öll eru þau talin tengjast fjölskyldunni í Auckland en slæmu fréttirnar eru þær að einn af hinum sýktu heimsótti nýverið ástvin á öldrunarheimili. Og annar mætti í skólann á mánudag og sat í kennslustofu í heilan dag. Um 100 manns í skólanum eru nú komnir í sóttkví.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir að það hafi verið fyrirséð að fleiri smit ættu eftir að greinast út frá hópsýkingunni. Og að enn eigi líklega fleiri eftir að greinast. Landlæknir Nýja-Sjálands telur að vel megi vera að veiran hafi verið á sveimi í Auckland vikum saman þó að fjölskyldan hafi verið sú fyrsta í langan tíma sem greind var með hana. Þetta hefur vakið ugg. Og furðu.
Uppruni veirunnar í hópsýkingunni er enn á huldu. Kenningar eru um að hann megi rekja til vinnustaðar eins úr fjölskyldunni. Þar er að finna kaldar vörugeymslur og innfluttar vörur.
Stjórnvöld á Nýja-Sjálandi settu á harðar aðgerðir í fyrstu bylgju faraldursins í vetur. Fólk var beinlínis beðið að vera heima. Þeim takmörkunum hafði verið aflétt en takmarkanir á ferðalögum eru enn miklar. Til landsins kemur enginn nema að hann sé ríkisborgari þess eða hafi þangað brýnt erindi, s.s. vegna vinnu í heilbrigðisþjónustunni.
Nú hefur aftur verið gripið til harðra aðgerða og borgarbúar í Auckland beðnir að halda sig heima og sinna aðeins nauðsynlegum erindum utan heimilis. Skólar eru lokaðir og fyrirtæki sem sinna ekki brýnni þjónustu sömuleiðis. Annars staðar í landinu hafa einnig ákveðnar takmarkanir verið settar en þó mun vægari en í Auckland.
Nýsjálendingum hefur verið hrósað í hástert fyrir viðbrögð sín við farsóttinni. Þeir voru taldir hafa náð einna bestum árangri við að hemja útbreiðsluna. Ekkert innanlandssmit greindist þar í 102 daga og fólk gat um frjálst höfuð strokið, mætt til vinnu, farið út í búð, án þess að telja sig í mikilli hættu á því að sýkjast.
„Enn einu sinni erum við minnt á hversu slóttug þessi veira er og hversu auðveldlega hún getur dreifst á milli manna,“ segir Ardern. „Að grípa til harðra aðgerða snemma er enn besta úrræðið sem við höfum.“
Á morgun, föstudag, verður tekin ákvörðun um hvort hinum hörðu aðgerðum verður aflétt á ný eða þeim haldið áfram. Á morgun mun Ardern einnig tilkynna, samhliða þessu, hvort að þingkosningum sem fram eiga fara 19. september, verði frestað.
Hvaðan kom hún?
Ashley Bloomfield, landlæknir Nýja-Sjálands, segir að skimun, smitrakning og einangrun séu enn þær aðferðir sem fyrst og fremst er beitt til að reyna að ná tökum á útbreiðslunni. Einnig sé verið að raðgreina veiruna til að reyna að komast að því hvaðan hún kemur. Hann hefur heitið því að upplýsa það. Hann segir mögulegt að veiran hafi verið á sveimi í Auckland um hríð því einn sjúklingurinn sem greindist í vikunni fór að sýna einkenni síðasta dag júlímánaðar.
Þó að kenningin um að hópsmitið megi rekja til kæligeymslu innfluttra matvæla telur landlæknirinn það „mjög ólíklegt“ þó að vitað sé að veiran geti lifað á sléttu og köldu yfirborði í einhverja daga. Til að útiloka þetta hafa verið tekin sýni í vöruhúsinu. Niðurstöðu er enn beðið.
Ef ekki tekst að finna hvaðan veiran kemur er ljóst að sú stefna sem stjórnvöld höfðu, að grípa hratt til harðra aðgerða, hefur ekki dugað til.
Stjórnvöld á Nýja-Sjálandi fóru þá leið í baráttu sinni við faraldurinn að reyna að útiloka veiruna frá landinu með öllu. Þau voru ekki aðeins að reyna að fletja kúrfuna, eins og flest önnur ríki. Tilgangurinn var sá að gefa landsmönnum tækifæri á því að eiga nokkuð eðlilegt líf, án takmarkana á samkomum. Þetta hefur vissulega haft efnahagsleg áhrif og nú hafa stjórnvöld boðað frekari stuðning til fyrirtækja.
Nýsjálendingar flykkjast nú í skimun og biðraðir eru langar. Þá hefur töluverð hræðsla gripið um sig á ný og dæmi eru um að fólk hamstri matvæli og aðrar nauðsynjar. Matvöruverslanir hafa því sumar hverjar takmarkað hversu mikið hver og einn má kaupa af ákveðnum vörum.
Flestir hafa hlýtt fyrirmælum stjórnvalda um að halda sig til hlés. Íbúar í Auckland gera það nær allir þó að einhverjir hafi reynt að stinga af í sumarhús sín við ströndina. Aðra sögu er að segja frá öðrum stöðum á landinu þar sem veiran hefur ekki látið á sér kræla mánuðum saman. Þar hafa farið fram mótmæli og krefjast mótmælendur þess að öllum takmörkunum á frelsi þeirra verði aflétt.
Ardern hefur undanfarið haldið daglega blaðamannafundi og farið yfir stöðuna. Á miðnætti að íslenskum tíma er þess vænst að hún muni færa löndum sínum tíðindi um framhaldið. Eftir að smitin þrettán greindust er talið líklegra að áfram verði hertar reglur í gildi. Miðað við þá stefnu sem stjórnvöld hafa tekið sé ekki tímabært að slaka.