„Þessi ákvörðun er auðvitað vonbrigði í sjálfu sér en hún er tekin vegna þess að veiran er í vexti í löndunum í kringum okkur,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykjförð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag.
Hún sagði hertar aðgerðir á landamærunum vera inngrip í ferðafrelsi, bæði ferðafrelsi gesta okkar sem og ferðafrelsi Íslendinga. „Og í slíkum aðstæðum viljum við alls ekki festast. Þannig að það skiptir miklu máli að við séum með þetta til stöðugrar endurskoðunar eins og við höfum verið mjög skýr með allan tímann. Þess vegna er mikilvægt að létta þá á þessum takmörkunum þegar að aðstæður leyfa,“ sagði Þórdís.
Alþjóðleg viðskipti hluti af sjálfsmynd Íslendinga
Hún sagði undirstöðu hagsældar á Íslandi vera alþjóðleg viðskipti og sterkar tengingar við eyríkið Ísland. Þar að auki væru alþjóðleg viðskipti, sterkar samgöngur, tengingar og tengsl vera stór partur af sjálfsmynd Íslendinga.
„En áfram eru persónubundnar og einstaklingsbundnar sóttvarnir langöflugasta tækið til að berja niður þessa veiru, það hefur ekki breyst. Og hertar aðgerðir á landamærum koma aldrei í staðinn fyrir það. Við búum í mjög góðu samfélagi og við búum í sterku samfélagi. Og við erum heppin með það teymi sem að leiðir okkur í gegnum þennan þátt verkefnisins,“ sagði Þórdís Kolbrún á fundinum.
Hún bætti því við að stjórnvöld væru heppin með sóttvarnayfirvöld. „Þetta er risastórt verkefni og það er alveg kristaltært að það erum við hér sem berum ábyrgð á þeim pólitísku ákvörðunum sem teknar eru en við erum heppin með það teymi sem að leiðir okkur í gegnum það og hjálpar okkur að taka þær ákvarðanir.“