Á bilinu 8-900 farþegar komu til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll í gær en gert hafði verið ráð fyrir um 2.600 farþegum. Þetta sagði Páll Páll Þórhallsson, verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu, á upplýsingafundi almannavarna sem haldinn var fyrr í dag. Margir farþegar hafi einnig afbókað far með Norrænu sem varð til þess að mun færri farþegar hafi komið til Seyðisfjarðar í morgun heldur en ráðgert var.
„Tíminn verður auðvitað að leiða í ljós að hvaða marki ferðamenn vilji koma til landsins undir þessum skilmálum. Við sjáum strax í einhverjum tilvikum að fólk hefur, í stað þess að afbóka, lengt ferð sína og taka þá tillit til sóttkvíarinnar,“ sagði Páll þar að auki. Fyrirkomulagið á landamærunum sé í stöðugri endurskoðun og því ekki hægt að segja hversu lengi þær ráðstafanir sem nú eru í gildi vari.
Framkvæmdin gengið vel
„Ég held að það megi segja að framkvæmdin á þessum nýju reglum hafi í stórum dráttum gegnið vel. Þessar nýju reglur eru auðvitað einfaldari heldur en það sem gilti áður. Það fara allir sömu leið inn í landið, það er að segja í tvöfalda skimun og sóttkví á milli og það er ekki neinn greinarmunur gerður á milli landa eins og áður var,“ sagði Páll um nýjar ráðstafanir á landamærum.
Fólkið sem vinnur á landamærunum, hjúkrunarfræðingar við skimanir og lögregluþjónar við landamæravörslu, eiga hrós skilið að mati Páls. Þetta fólk hafi til viðbótar við hefðbundin störf þurft að sinna upplýsingagjöf. „Þetta frábæra starfsfólk sem við eigum á landamærunum er auðvitað að gera mun meira kannski heldur en ella, jafnvel að leiðbeina fólki um gistimöguleika og benda á hvaða gisting uppfylli kröfu til sóttkvíar,“ sagði Páll.
Hnykkt á ábyrgð flugrekenda
Páll sagði farþega vera misvel upplýsta við komuna til landsins, það kunni að stafa af tungumálaörðugleikum. Hann sagði að mikil vinna hefði verið lögð í að koma forskráningu og leiðbeiningum á fleiri tungumál en íslensku og ensku. Þá er upplýsingagjöf af hálfu flugfélaga misjöfn.
„Við sjáum það líka að það er misjafnt eftir flugfélögum hversu vel upplýsingum hefur verið komið til skila til farþega og í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra er hnykkt á ábyrgð flugrekenda að upplýsa farþega um þessa kröfu um forskráningu,“ sagði Páll um upplýsingagjöfina til farþega.