Fimm starfsmenn Háskóla Íslands, sem störfuðu í fjórum byggingum skólans, hafa greinst með kórónuveirusmit. Í skimun Íslenskrar erfðagreiningar, sem hófst í skólanum í gær, greindist þó aðeins einn af um 450 sem voru skimaðir með smit. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir það vissulega góðar fréttir en að áhyggjur skólayfirvalda snúi að því að ekki séu sýnileg tengsl milli þeirra sem hafa greinst með veiruna innan háskólans. Fólkið sé ekki í nánu samstarfi. Því segir hann gríðarlega mikilvægt að sem flestir af nemendum og starfsmönnum skólans fari í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu líkt og þeir hafa fengið boð um.
„Fleiri þurfa að fara í skimun svo hægt sé að kortleggja þetta betur,“ segir Jón Atli í samtali við Kjarnann í morgun. Hann var þá að koma af fundi neyðarstjórnar háskólans sem fundaði daglega í fyrstu bylgju faraldursins en hefur fundað sjaldnar upp á síðkastið. Það breytist héðan í frá og er stefnt að tíðari fundum neyðarstjórnar á ný. Næsti fundur hennar verður strax á morgun.
Hann segir enn ekki fullvíst hvort að fólkið sem um ræðir hafi smitast í háskólanum eða hvort að það hafi smitast annars staðar. Þá veit hann ekki heldur hvort að öll smitin séu ný eða hvort að um gömul smit sé að ræða.
Jón Atli segir að allt frá því að haustmisseri hófst hafi verið lögð mikil áhersla á sóttvarnir og fjarlægðarmörk milli fólks. Þá er reynt að tryggja ítarleg þrif eins og kostur er. Hvort gripið verði til frekari aðgerða en þegar hefur verið gert er svo að sögn Jóns Atla í sífelldri skoðun. „Við erum með tilmæli um að fundir séu sem mest á netinu, kennslan er svo að grunni til rafræn en við viljum hafa eitthvert staðnám og þá sérstaklega fyrir nýnema. Við höfum ekki breytt þessum áherslum en við erum tilbúin í það ef þarf.“
Jón Atli segir starfsmenn háskólans finna fyrir því að nemendur séu áhyggjufullir. Háskóli sé samfélag og í ástandi eins og því sem nú ríki sé erfitt að halda utan nemendurna. Þess vegna hafi verið ákveðið að bjóða nýnemum í staðnám því þeirra tengsl inn í háskólasamfélagið eru minni en eldri nemenda. „En málið er að þetta er erfitt og þetta getur leitt til aukins brottfalls sem við viljum auðvitað ekki sjá. Við reynum að mæta þessu eins vel og við getum en við vitum að aðstæður nemenda eru víða ekki góðar.“
Jón Atli vonar að frekari skimun geti varpað ljósi á tengsl starfsmannanna sem greinst hafa með veiruna. Kortlagning á því sé mjög mikilvæg.
„Við fögnum því að þessi skimun sé í gangi og þökkum Kára [Stefánssyni] og Íslenskri erfðagreiningu innilega fyrir,“ segir Jón Atli. „En við þurfum að ná að komast að því hvernig smitin tengjast, það er mjög mikilvægt. Ég hvet því eindregið fólk innan Háskóla Íslands að fara í skimun sem þeim býðst hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag og á morgun.“