Möguleg lögbrot við flutning og niðurrif tveggja skipa sem voru í eigu Eimskips, Laxfoss og Goðafoss, eru á borði stjórnvalda á Íslandi og í Hollandi.
Þetta kom fram í Kveik á RÚV í kvöld þar sem fjallað var um endurvinnslu skipanna tveggja í skipaniðurrifsstöð í Indlandi sem uppfyllir ekki evrópskar reglur um endurvinnslu skipa.
Samkvæmt heimildum Kveiks hefur beiðni um opinbera rannsókn á meintum ólöglegum flutningi og niðurrifi skipanna tveggja verið send til embættis Héraðssaksóknara.
Löggjöf tók gildi á Íslandi fyrir ári síðan
Skipin tvö voru seld í desember í fyrra til fyrirtækis sem heitir GMS, og sérhæfir sig í að vera milliliður sem kaupir skip til að setja þau í niðurrif í Asíu þar sem kröfur um aðbúnað starfsmanna og umhverfisáhrif niðurrifsins eru mun lakari en í Evrópu. Þar eru skip oft rifin í flæðarmálinu og ýmis spilliefni látin flæða út í umhverfið. Þá vinna starfsmenn þar við svo erfiðar aðstæður að þær hafa verið kallaðar mannréttindabrot.
Evrópusambandið (ESB) lögfesti Basel-sáttmálann, sem gerður var 1998, fyrir 14 árum síðan og bannaði þar með útflutning hættulega og mengandi úrgangs frá Evrópu. Frá 2018 hefur ESB svo lagt bann við því að skip yfir 500 brúttótonnum séu rifin annars staðar en í vottuðum endurvinnslustöðvum. Bæði Laxfoss og Goðafoss voru yfir þeirri stærð.
Sú löggjöf tók gildi á Íslandi fyrir ári síðan og gildir því um starfsemi Eimskips. Brot á henni geta varðar fjársektum eða nokkurra ára fangelsi.
Lífeyrissjóðir eiga meira en helming í Eimskip
Stærsti eigandi Eimskips er Samherji Holding, annar helmingur Samherjasamstæðunnar sem heldur utan um erlenda starfsemi hennar og eignarhlutinn í Eimskip, með 27,06 prósent hlut. Stjórnarformaður Eimskips er Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja. Baldvin á nú 20,5 prósent hlut í Samherja hf.,, hinu félaginu sem myndar Samherjasamstæðuna. Samherji er með tvö af fimm stjórnarsætum í Eimskip auk þess sem samsteypan styður einn óháðan stjórnarmann óskorað til stjórnarsetu. Í janúar 2019 var svo ráðinn nýr forstjóri Eimskips, Vilhelm Már Þorsteinsson. Hann er frændi stjórnarformannsins og tveggja helstu eigenda Samherja. Vilhelm neitaði að veita Kveik viðtal vegna umfjöllunar þáttarins um Eimskip.
Eimskip sendi hins vegar frá sér tilkynningu í síðustu viku, eftir að Kveikur hafði óskað eftir viðtali, þar sem fyrirtækið sagðist ekki hafa tekið ákvörðun um að senda skipin tvö til Indlands í endurvinnslu, heldur hafi það verið ákvörðun GMS, sem keypti skipin af Eimskip.
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga meira en helming í Eimskip. Stærstu sjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Birta eiga samtals 43,2 prósent í skipafélaginu. Allir sjóðirnir hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í starfsemi sinni.