Byggðastofnun telur að í nýjum frumvarpsdrögum til laga um fæðingarorlof skorti upp á að tekið sé tillit til fæðandi kvenna og fjölskyldna þeirra sem búa fjarri fæðingarþjónustu og þurfa að dveljast utan heimilis og bíða eftir fæðingu, til dæmis þegar veður hamlar samgöngum.
Ein leið til að bregðast við þessu, að mati stofnunarinnar, væri að að bæta við sérstöku viðbótarfæðingarorlofi fyrir þá foreldra á meðan á bið stendur, sem myndi í engu skerða almennt fæðingarorlof. Þetta kemur fram í umsögn stofnunarinnar um frumvarpsdrögin.
Byggðastofnun segir að gera megi ráð fyrir að allt að 10 prósent mæðra á Íslandi búi í meira en klukkustundarfjarlægð frá fæðingarþjónustu, en að víða sé fjarlægðin enn meiri, til dæmis á sunnanverðum Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðausturlandi og Suðausturlandi. Stofnunin telur afar brýnt að tekið verði tillit til foreldra sem búa á þessum svæðum og segist tilbúin að koma að vinnu við skilgreiningu á því hvaða svæði ættu að falla undir slíkar reglur.
Byggðastofnun er eina opinbera stofnunin sem hefur skilað inn frumvarpi um frumvarpsdrögin, sem hafa verið til umsagnar í samráðsgáttinni frá 23. september og verða þar áfram til 7. október.
Kvenréttindafélagið tekur jafnri skiptingu fagnandi
Hátt í 130 umsagnir um frumvarpið hafa borist til þessa. Þær eru langflestar frá einstaklingum, foreldrum eða verðandi foreldrum, sem flest eru að gagnrýna áform um jafna skiptingu fæðingarorlofsins á milli foreldra. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um ágæti þeirra breytinga sem stefnt er að.
Kvenréttindafélag Íslands hefur sent inn um umsögn um frumvarpsdrögin, þar sem þeim er fagnað, enda hefur Kvenréttindafélagið talað fyrir því að fæðingarorlofinu verði alveg jafnt skipt á milli foreldra. Félagið segir um að ræða „réttarbót sem mun stuðla að bættri stöðu kvenna og auknu kynjajafnrétti hér á landi.“
Félagið hefur framleitt myndskeið og birt á YouTube þar sem farið er yfir þær röksemdir sem liggja að baki afstöðu félagsins. „Ísland er eitt þeirra landa í heiminum þar sem hvað mest jafnrétti ríkir. Þrátt fyrir það bera konur enn þá meiri ábyrgð á heimili og börnum. Það leiðir til þess að konur fá lægri laun, síður stöðuhækkun, vinna frekar hlutastörf og fá lægri eftirlaun. Allt þetta hefst með fæðingarorlofinu. Deilum fæðingarorlofinu jafnt!“ segir í lýsingu myndbandsins.
Kvenréttindafélagið er þó ekki hlynnt þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpsdrögunum og varðar styttingu þessa tímabils sem foreldrar hafa til þess að taka fæðingarorlof eftir fæðingu barns, en til stendur að stytta það úr 24 mánuðum niður í 18.
„Í skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði frá árinu 2017 kemur í ljós að rúmlega helmingur landsmanna býr í sveitarfélögum þar sem inntökualdur barna á leikskóla er 24 mánaða. Nauðsynlegt er að foreldrar hafi svigrúm til að taka fæðingarorlof á þessum 24 mánuðum á meðan öllum börnum er ekki tryggð dagvistun,“ segir í umsögn Kvenréttindafélagsins, sem telur áríðandi að tryggja rétt íslenskra barna til dagvistunar með lögum, eins og hin Norðurlöndin hafi þegar gert.