Uppboð á aflaheimildum til að veiða meðal annars hrossamakríl í Namibíu fór mun verr en stjórnvöld þar höfðu lagt upp með. Þegar þær voru boðnar út í ágúst síðastliðnum var greint frá því að þær myndu skila 628 milljónum namibískra dala, um 5,8 milljarða króna, í tekjur fyrir namibísk stjórnvöld.
Niðurstaðan varð hins vegar sú að einungis fimm bjóðendur greiddu fyrir þann kvóta sem þeir skráðu sig fyrir og 1,3 prósent af ætlaðri upphæð skilaði sér í ríkiskassann hjá namibískum stjórnvöldum, eða um 78 milljónir króna. Frá þessu var greint nýverið í dagblaðinu Namibian.
Kjarninn greindi frá því í júní að stjórnvöld í Namibíu stefndu að uppboði aflaheimilda, meðal annars hrossamakrílskvóta, sem áður var á hendi dótturfélags Samherja í landinu. Sá kvóti var svo boðinn upp í ferli sem hófst um miðjan ágúst og lauk í byrjun september.
Þetta var í fyrsta sinn sem namibíska ríkið bauð upp kvóta á markaði, en árum saman hefur stórum hluta aflaheimilda verið úthlutað til ríkisfyrirtækisins Fishcor, sem sá svo um að úthluta kvótanum áfram.
Fjármálaráðherra Namibíu, Lipumbu Shiimi, sagði að stjórnvöld teldu enn að uppboð á kvóta væri rétta leiðin til að fá sannvirði fyrir auðlindirnar. Þetta hafi verið í fyrsta sinn sem uppboð hafi verið haldið og að undir eðlilegum kringumstæðum hefðu stjórnvöld getað fengið tvöfalda þá upphæðar sem var greidd hefði verið fyrir kvótann ef hann hefði ekki verið boðinn upp.
Af þeim 111 sem buðu í kvótann í fyrstu umferð þá náðu einungis 33 bjóðendur inn á lokalista stjórnvalda yfir kaupendur. Af þeim þá gátu einungis fimm greitt það sem þeir buðu innan þess tíma sem stjórnvöld höfðu gefið þeim.
Þá var ráðist í aðra umferð og tilboðum tekið í kvóta upp á 464 milljónir namibískra dala frá alls 18 manns. Af þeim 18 borguðu einungis þrír innan tilskilins tíma. Í frétt Namibian sgir að flestir þeirra sem buðu hafi ekki átt skip til að veiða kvótann og að þeir leikendur í sjávarútvegi sem eigi slík hafi ákveðið að taka ekki þátt.
Namibíska ríkið er nú í verulegum efnahagskröggum og þarf nauðsynlega á gjaldeyri að halda til þess að geta orðið sér úti um nauðsynjar til að fást við COVID-19 faraldurinn í landinu.
Í júlímánuði leitaði ríkið eftir neyðarláni frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að andvirði tæplega 35 milljarða íslenskra króna til þess að fást við faraldurinn og afleiðingar hans.