Eimskip var „heppið“ að finna kaupanda að Laxfossi og Goðafossi og gerði hárrétt með því að hámarka söluverðmæti skipanna. Stjórnendum Eimskips ætti að hrósa „fyrir að beita sér fyrir hagsmunum fyrirtækisins og hluthafa“ og þeir gerðust síður en svo brotlegir við lög.
Þetta segir í yfirlýsingu frá GMS, fyrirtækinu sem keypti öldnu flutningaskipin tvö og seldi síðan áfram til endurvinnslustöðva í Alang á Indlandi. GMS bregst þar við umfjöllun Kveiks um sölu skipanna tveggja og endurvinnsluferli þeirra, sem er nú á borði embættis héraðssaksóknara eftir kæru frá Umhverfisstofnun. Fyrirtækið segist sjálft vera að skoða að ráðast í lögsóknir í tengslum við umfjöllun Kveiks.
Eimskip sjálft baðst afsökunar á því skipin hefðu endað í endurvinnslu á ströndum Indlands, þar sem kröfur um aðbúnað starfsmanna og umhverfisáhrif endurvinnslunnar eru minni en í Evrópu. Í yfirlýsingu félagsins til Kauphallar 30. september sagðist Eimskip hafa „mátt gera ríkari kröfur gagnvart kaupandanum,“ í ljósi þess að skipin tvö voru komin til ára sinna.
Ásakanir um að flytja falsfréttir í pólitískum tilgangi
Alls enga afsökunarbeiðni er að finna í yfirlýsingu GMS, sem er ansi harðorð. Fréttamenn Kveiks eru þar sakaðir um upplýsingaóreiðu og falsfréttir í „illa rannsakaðri og villandi 30 mínútna heimildarmynd“ sem þjóni þeim tilgangi að fá háar áhorfstölur með „svokallaðri fréttamennsku“ í „götublaðastíl.“
Í yfirlýsingu GMS eru athugasemdir gerðar við margt sem fram kemur í þætti Kveiks og segist fyrirtækið raunar hafa afsannað sumar fullyrðingar í þættinum þegar það brást við umfjöllun BBC um aðstæður í endurvinnslustöðvunum í Alang, meðal annars hvað varðar fjölda slysa á verkamönnum og gæði heilbrigðisþjónustu á svæðinu.
GMS segir að þáttur Kveiks sýni „augljósa hlutdrægni“ í þá átt að styðja evrópskar endurvinnslustöðvar sem starfa samkvæmt reglugerðum Evrópusambandsins um skipaendurvinnslu og geri á móti lítið úr alþjóðlega Hong Kong-samningnum um örugga og umhverfisvæna skipaendurvinnslu. Sá alþjóðasamningur hefur ekki öðlast formlegt gildi.
„Vesturlönd gegn Indlandi“
GMS gagnrýnir umfjöllun Kveiks um starfsaðferðirnar við endurvinnsluna í Alang, sér í lagi umfjöllun um hina svokölluðu „þyngdaraflsaðferð“, sem lýsir sér þannig að skipin eru bútuð í sundur með gasbrennurum og látin falla undan eigin þyngd í flæðarmálið. Sú aðferð er ekki heimiluð samkvæmt evrópskri löggjöf um skipaendurvinnslu.
Í yfirlýsingu GMS segir að í þættinum sé lögð áhersla á að teikna þessa aðferð upp í slæmu ljósi, þegar raunveruleikinn sé sá að um sé að ræða margreynda og prófaða aðferð við niðurrif skipa sem sé ekki einungis notuð í SA-Asíu, heldur víðar. Þessi aðferð sé ekki mjög frábrugðin þeim sem sé notuð til að rífa stórhýsi á Vesturlöndum og sé þar kölluð „stýrt niðurrif“ á máli fagmanna.
Ekki hafi verið talað við ánægðu starfsmennina
GMS segir að Kveiks-liðar hafi viljandi reynt að sýna indversku endurvinnslustöðvarnar í neikvæðu ljósi með því að greina einungis frá neikvæðum upplifunum eins óánægðs starfsmanns í Alang.
Á móti hafi fréttamennirnir látið undir höfuð leggjast að segja frá þeim þúsundum starfsmanna sem séu ánægðir með að hafa vinnu í þessum endurvinnslustöðvum og hafi einnig ekki sagt frá því að verkamennirnir í Alang komi víða frá í Indlandi til þess að hljóta þessi „eftirsóttu störf“, sem séu betur launuð en störf á þessu svæði eru alla jafna.
Einnig hafi Kveikur ekki sagt frá því að endurvinnslustöðvarnar hafi stutt vel við bakið á sínu starfsfólki í COVID-19 faraldrinum þrátt fyrir að starfsemi hefði nánast lagst af – haldið áfram að borga þeim og veitt mataraðstoð.
Skoða meiðyrðamálsóknir
Heilt yfir þá sakar GMS Kveik um að ganga erinda frjálsra félagasamtaka í Evrópu sem fari harkalega fram í baráttu sinni gegn skipaendurvinnslu á Indlandi, fyrir sinn eigin pólitíska og persónulega ávinning.
Fyrirtækið segist vera að skoða lögsóknir vegna þess sem kemur fram í þætti Kveiks, þar sem „virt og vel þekkt“ vörumerki GMS hafi vísvitandi verið dregið niður í svaðið.
Í lok yfirlýsingar sinnar kvartar fyrirtækið svo yfir því að fleiri aðilar í alþjóðlega skipaiðnaðinum láti ekki í sér heyra, þegar „fölsk sjónarhorn“ um skipaendurvinnslu í Asíu séu sett fram.
GMS telur sig eitt vera að berjast með sannleika og staðreyndir að vopni gegn rangri umfjöllun og segir að það verði til þess að fyrirtækið lendi efst á fórnarlambalista þeirra sem séu staðráðnir í að vinna gegn alþjóðlega Hong Kong-samningnum og stöðva skipaendurvinnsluiðnaðinn í Indlandi og nærliggjandi löndum.
Fyrirtækið hvetur aðra til þess að „rísa upp og láta í sér heyra!“