Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt við félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild við HÍ, segir að út frá fræðunum séu rannsóknir á útilokunarmenningu, eða „cancel culture“ eins og það heitir á ensku, stutt á veg komnar.
Hugtakið hefur einungis verið í notkun í um þrjú ár þrátt fyrir að sögnin að vera „cancelled“ – eða að vera útilokaður – sé aðeins eldri.
Kjarninn fjallaði ítarlega um útilokunarmenningu í síðustu viku en Arnar Eggert var einn viðmælendanna. Útilokunarmenning gengur út á það að útiloka einstaklinga sem brotið hafa gegn samfélagslegum gildum og hagsmunum þjóðfélagsins – ýmist með því að hafa tjáð sig á ákveðinn máta eða gert eitthvað á hlut annarra.
Arnar Eggert segir það vera áhugavert verkefni fyrir félagsfræðinga, fjölmiðlafræðinga og mannfræðinga að sjá hvernig þessi útilokun eigi sér stað því enginn einn taki ákvörðun um að útiloka einstakling. Frekar sé hægt að segja að einhvers konar stemning myndist og í framhaldinu verði þessi útilokun.
Til þess að kafa betur ofan í hugtakið sé þó best að taka dæmi. Arnar Eggert tekur sjálfur dæmi um það sem liggur næst hjarta hans, tónlist.
Fólki stillt upp við vegg
Morrissey er breskur tónlistarmaður og kannski mest þekktur fyrir að vera söngvari hljómsveitarinnar The Smiths sem gerði garðinn frægan á níunda áratugnum og þrátt fyrir stuttan feril hafði hljómsveitin gríðarleg áhrif á svokallaða indí-tónlist. Söngvarinn hóf sólóferil eftir að The Smiths hættu en hann hefur verið umdeildur til margra ára. Nú er hann sakaður um öfgafull hægriviðhorf og rasisma en sjálfur neitar hann slíku.
Arnar Eggert segir, þegar hann er spurður út í þá pressu að hætta á hlusta á ákveðna listamenn vegna gjörða þeirra eða orða, að fólki sé þannig stillt upp við vegg. „Ég er til dæmis ekki persónulega tilbúinn að hætta að hlusta á Morrissey. Mig langar til að hlusta á hann af því að lögin hans gleðja mig. Sérstaklega þá Smiths, ég gæti svo sem lifað af án sólóferilsins.“
Að hlusta á tónlist er svo persónuleg upplifun, að hans mati. „Tónlist skilgreinir þig og er partur af lífi þínu. Það gefur eitthvað og lyftir þér upp.“ Svo svekkelsið verður mikið þegar átrúnaðargoðið hagar sé ósæmilega eða brýtur af sér með einhverjum hætti. Hann spyr hvort það sé þá gildisdómur gegn þeim sem hlustar enn á tónlist þess sem hagar sér illa, gildisdómur um það hvernig manneskja hann er.
Jafningjaþrýstingur gæti enn fremur haft áhrif á ákvarðanir fólks. „Eitt hugtak úr fjölmiðlafræðinni heitir þagnarsvelgurinn, eða „the spiral of silence“ á ensku. Það lýsir sér þannig að ef þú stendur inn í herbergi með tuttugu manns og allir hata til dæmis Morrissey þá er mun líklegra að þú takir undir það en hitt. Að þú þorir ekki að brjóta gegn fjöldanum,“ segir hann.
Ákveðin sjálfsritskoðun á sér stað
Fleiri spurningar vakna þó upp þegar rætt er um tónlistarmenn og hvort list þeirra hafi eitthvað með persónu þeirra að gera. Ein þeirra snýst um tímann, þ.e. á hvaða tímapunkti í ferli tónlistarmanns sem er útilokaður sé eðlilegt að hætta að hlusta á hann? Arnar Eggert nefnir tónlistarmanninn Michael Jackson sem dæmi en hann hefur verið ásakaður í gegnum tíðina um gróf kynferðisbrot gegn börnum. Arnar Eggert spyr í því samhengi hvort það sé í lagi að hlusta á plöturnar sem hann gerði áður en hann varð fullorðinn og hver ákveði það í raun.
Hann bendir á að það verði einnig ákveðin sjálfsritskoðun eftir að upp kemst um mál þeirra frægu. „Ég til dæmis er sjálfur hættur að vitna í Woody Allen því ég finn að maður fær alltaf svip. Ég bara sleppi því.“ Þarna á Arnar Eggert við um leikstjórann fræga sem hefur verið ásakaður um misnotkun á barni.
En hefur hann fundið fyrir því í eigin brjósti hvort hann vilji hætta að vitna í fyrrnefndan leikstjóra eða kom þrýstingurinn einungis utan frá? „Ég er bara ekki viss – ég er svona misvolgur og heitur þegar aðilar eiga í hlut. Með Woody Allen er ég hreinlega ekki viss. Varðandi Bill Cosby þá finn ég innra með mér að ég hef ekki lyst á því að horfa á þættina hans. Þetta er mjög furðulegt allt saman.“
Bill Cosby er bandarískur grínisti sem var sakfelldur fyrir tveimur árum fyrir kynferðisbrot sem áttu sér stað fyrir meira en áratug áður. Mál hans varð umtalað – en lengi hafði verði orðrómur um hegðun hans gagnvart konum.
Arnar Eggert segir að stóra spurningin sé sú hvort hægt sé að aðgreina listamanninn frá listinni sjálfri. Hann telur að rosalega erfitt sé að svara þeirri spurningu. „Sumir segja að það sé hægt að aðgreina þetta tvennt og aðrir bara alls ekki. Síðan er hægt að rökræða það út í hið óendanlega. Þetta er í raun stórheimspekileg spurning.“
Útilokunarmenning ekki skammaryrði
Hegðun fólks er oft ólík þeirri sem það sýnir á internetinu. Þannig virðist heilt yfir vera auðveldara fyrir fólk að tjá sig og vera leiðinlegt á netinu, að mati Arnars Eggerts. Auðveldara sé að vera dónalegur við aðra á netinu þar sem fólk þurfi ekki standa augliti til auglitis.
Honum finnst þó ekki vera hægt að ganga svo langt að segja að útilokunarmenning sé skammaryrði, eins og sumir vilja halda fram.
„En um leið tek ég undir það að ákveðin stemning í kringum útilokunarmenningu líkist nornabrennum. Fólk fer offari. Við sjáum stundum hversu mikil hópdýr við erum í þessum aðstæðum, við sveiflumst með stemningu nánast án þess að pæla mikið í því.“
Metoo-byltingin jákvæð – en stundum hafi verið farið offari
Þegar Arnar Eggert er spurður út í hvað það þýðir að axla ábyrgð. Hann bendir á að metoo-byltingin hafi fellt stóra menn á borð við Bill Cosby og Harvey Weinstein. Hann segir að þetta séu augljós dæmi um það sem vannst með metoo.
Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein var dæmdur í 23 ára fangelsi fyrr á þessu ári fyrir kynferðisbrot og nauðgun. Segja má að metoo-byltingin fyrir þremur árum hafi hafist með því að konur stigu fram og greindu frá ósæmilegri og brotlegri hegðun Weinsteins.
„Þegar við sjáum hreina og beina upprætingu á ákveðnu mynstri sem hafði viðgengist og viðhaldið með rosalegu félagsneti í kringum hann í áratugi. Það segir okkur svo mikið um það hvernig við sem manneskjur getum gengist við einhverju með því til dæmis að segja: „Þú veist hvernig hann er.“ Mér finnst það vera svakalega jákvæð þróun að setja mörk við svona hegðun,“ segir hann.
Þannig hafi metoo-byltingin verið mjög jákvæð. „En svo eins og með allt þá er stundum farið offari – og það er mjög erfitt að greina hvenær það nákvæmlega gerist. Þá þarf að taka hvert dæmi fyrir sig, vegna þess að þau eru ólík og á mismunandi sviðum.“
Hvað þýðir í raun og veru að vera útilokaður?
Hinir ýmsu leikarar, stjórnmálamenn, uppistandarar og listamenn hafa opinberlega verið útilokaðir – þ.e. kallaðir til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar af samfélaginu. Þá má spyrja hvort það að vera útilokaður á internetinu hafi raunafleiðingar. Hefur það raunveruleg áhrif á stöðu, vald og áhrif einstaklingsins?
Fleiri spurningar vakna á borð við hvað það þýði að halda öllu tengslaneti og starfi þrátt fyrir að vera útilokaður. Hefur hugtakið einhverja merkingu?
Arnar Eggert segir að sitt sýnist hverjum. Hann telur þó að fólk sé annað hvort útilokað eða ekki. Sumir hafa komist „í gegn“ og telur hann erfitt að segja hvaða þættir það séu sem valdi því að fólk geti haldið áfram að starfa á sama sviði.
„Björn Bragi tók þannig á því að hann fór aftur í grínið og gerði grín að því sem kom fyrir hann. Fólk er mjög misánægt með þá nálgun. Það fer kannski líka eftir því hvaða kyni þú tilheyrir, ég varð var við það. Þetta að menn hafi – af því að þeir eru í ákveðinni styrkri stöðu – einhvern veginn spilað þetta vel,“ segir hann.
Í þessu samhengi veltir hann því fyrir sér hvernig hægt sé að mæla hversu alvarlegt brotið þurfi að vera til þess að fólk sé útilokað. „Er í lagi að strjúka óviðurkvæmilega? Þarf að nauðga einu sinni, tvisvar eða þrisvar? Hver ákveður það?“ spyr hann.
Hægt er að lesa umfjöllunina um útilokunarmenningu hér.