Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir mál skipverjanna á Júlíusi Geirmundssyni, sem Hraðfrystihúsið-Gunnvör gerir út, ömurlegt og telur ljóst að freklega hafi verið farið á svig við grundvallaratriði sjómennskunnar sem snúast um að vernda heilsu og öryggi áhafnarinnar. „Fyrirtækið hefði átt að taka á þessu máli með allt öðrum hætti en gert var.“
Þetta sagði ráðherrann í Silfrinu í dag.
Meirihluti áhafnarinnar er með COVID-19 og hefur lýst skelfilegum aðstæðum sem sköpuðust um borð er einn af öðrum fór að veikjast. Skipverjar segjast hafa verið látnir vinna veikir og sumir hafi veikst alvarlega, fengið háan hita og glímt við öndunarerfiðleika.
„Ég þekki það af eigin reynslu sem sjómaður og skipstjóri um hvað er að tefla þarna,“ sagði Kristján Þór. Markmið hverrar veiðiferðar íslensks fiskiskips sé það að sigla úr höfn og koma áhöfninni heilli heim. „Við þessar aðstæður skiptir öryggi og velferð sjómanna um borð höfuðmáli. Það er alveg augljóst að heilsa og velferð skipverja leikur lykilhlutverk. Og af allri umfjöllun um þetta ömurlega mál er alveg augljóst, öllum sem á vilja horfa, að þarna er farið freklega á svig við þessi grundvallaratriði.“
Kristján sagði marga samverkandi þætti hafa komið til í málinu. Hann segist telja þetta einangrað tilvik í sjávarútvegi. Nefndi hann dæmi um allt önnur vinnubrögð sem viðhöfð voru um borð í öðru skipi þar sem upp kom hópsmit.
Hann sagði að ábyrgð útgerðar og skipstjóra væri vissulega mikil. „Svo er það þannig hjá íslenskum sjómönnum, eins og kom fram í þessu einlæga og heiðarlega viðtali við unga hásetann að þar eru menn um borð að taka þetta „á kassann“ eins og sjómenn segja stundum. En þegar við erum að ræða hvernig þessir hlutir ganga þá gleymist oft að um borð í fiskiskipi eru, eins og í þessu tilviki 20 menn í áhöfn, sem eru lokaðir inni stálkassa í þessar þrjár vikur, og það eru eðlilega ótal tilfinningar sem bærast með mönnum í þessari stöðu.“
Spurður hvort hann teldi þessa óheilbrigðu og óeðlilegu menningu sem var um borð í Júlíusi Geirmundssyni vera til marks um víðtækara vandamál í sjávarútveginum í heild sinni sagði Kristján að „ógnarstjórnun“ væri ekki bara bundin við sjávarútveg. „Ég ætla rétt að vona að þessi heiðarleiki hjá unga sjómanninum bitni ekki á honum með þeim hætti að hann missi atvinnu. Þetta er frábært dæmi um einstakling sem að þorir að stíga fram og er ágætis málsvari íslenskra sjómanna við þær aðstæður sem þarna eru uppi og þarna skapast. Þetta er gríðarlega erfitt, að takast á við þetta, það þarf mikinn kjark til að koma fram með þessum hætti og ég tek ofan fyrir þessum unga manni.“
Kristján Þór sagðist hafa átt fund með forystufólki sjómanna fyrir um tveimur vikum. Þar hafi þeir lýst yfir áhyggjum sínum af versnandi samskiptum sjómanna og útgerðarmanna. „Ég vænti þess að þetta mál geti orðið til þess að kveikja betur í þeim vilja til viðræðna til að bæta þau samskipti.“