Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að um borð í Júlíusi Geirmundssyni hafi ekki verið farið að útgefnum leiðbeiningum um viðbrögð ef grunur um smit af kórónuveirunni vaknar. Leiðbeiningarnar voru samdar sameiginlega af SFS og stéttarfélögum sjómanna í samstarfi við embætti landlæknis og voru þær sendar á útgerðarfyrirtækin.
„Um borð í skipum er nánd mikil á milli manna og veikindi geta hæglega borist út, eins og því miður sýndi sig í þessu tilfelli,“ skrifar Heiðrún Lind í yfirlýsingu. „Í tilfelli Júlíusar Geirmundssonar var ekki farið eftir þessum leiðbeiningum. Samkvæmt þeim hefði átt að hafa samband við Landhelgisgæsluna þegar veikinda varð vart og þar með hefði málið verið komið í réttan farveg. Á þessum misbresti verða skipstjóri og útgerð skipsins að axla ábyrgð.“
Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf., sem gerir út Júlíus Geirmundsson, sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem beðist er afsökunar á því að ekki hafi verið haft samband við Gæsluna eins og leiðbeiningar gerðu ráð fyrir. Einnig kom fram að útgerðinni þætti „þungbært að sitja undir ásökunum um að vanrækja heilsu og öryggi sjómanna“. Þessi yfirlýsing var birt á vef útgerðarinnar og þar sett fram í nafni Einars Vals Kristjánssonar, framkvæmdastjóra HG. Vísir greinir hins vegar frá því að í word-skjali sem sent hafi verið með yfirlýsingunni á suma fjölmiðla í morgun, hafi Heiðrún Lind, framkvæmdastjóri SFS, verið skráður höfundur skjalsins.
´
Í yfirlýsingu SFS sem fylgdi í kjölfarið í nafni Heiðrúnar Lindar, talar hún um mikilvægi þess að samskipti útgerða og sjómanna séu góð, sérstaklega þegar í hlut eigi frystiskip sem eru lengi á sjó. „Þetta mál hefur skaðað þessi samskipti. SFS hyggjast ræða málið við forystumenn stéttarfélaga sjómanna á næstu dögum. Mikilvægt er að greina hvað fór úrskeiðis og læra af því. Raunir þessara skipverja á Júlíusi Geirmundssyni mega ekki endurtaka sig á íslenskum skipum.“Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra var spurður út í málið í Silfrinu í morgun og sérstaklega um þátt SFS í því og nýlegan samfélagssáttmála sem sjávarútvegsfyrirtæki, m.a. Hraðfrystihúsið-Gunnvör skrifar undir. Í sáttmálanum er sérstaklega talað um öryggismál sjómanna og spurði Fanney Birna Jónsdóttir, stjórnandi Silfursins, ráðherrann hvort að hægt væri að taka plaggið alvarlega í ljósi þess sem nú hefur komið á daginn. „Ég held að það sé ágætt að taka þetta mál sem dæmi um það hvers vegna Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru að setja sér stefnu í þessum efnum. Og maður hefði ályktað sem svo, og ég ætla ekkert að draga það í efa, að það sé fullur vilji samtakanna að gera bragarbót í þessum efnum. Það er virðingarvert að samtökin setji sér einhverja stefnu. Ég ætla þá að vona að það verði dreginn einhver lærdómur af þessu máli, að það verði prófmál í þá veru að bæta meðferð þessara mála. Því á engan hátt getur þetta mál, sem að sem hefur leitt til þessarar miklu umræðu og öllum er brugðið sem fylgst hafa með, getur ekki verið fordæmi fyrir nokkurn skapaðan hlut í góðum samskiptum eða samfélagsábyrgð.“