Stjórn Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) samþykkti á fundi sínum í dag að hætta keppni í Íslandsmótum og bikarkeppni KSÍ 2020. Það er gert í samræmi við 5. grein í reglugerð um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru sem gefin var út í júlí síðastliðnum.
í umræddri 5. grein kemur fram að hafi „að lágmarki 2/3 hlutar heildarleikja í efstu deild, 1. deild og 2. deild verið leiknir samkvæmt mótaskrá ræður meðalfjöldi stiga hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst, endanlegri niðurröðun. Telst Íslandsmótinu þar með lokið. Skulu þá Íslandsmeistarar krýndir og lið færast á milli deilda með sama hætti og ef allir leikir í öllum deildum á Íslandsmóti hefðu verið leiknir.“
Keflavík og Leiknir fara upp úr Lengjudeild karla (næst efstu deild) og upp í Pepsí Max-deildina. Leiknir er sem stendur með jafn mörg stig og Fram í þriðja sæti, en betri markatölu. Þróttur Reykjavík heldur sæti sínu í Lengjudeild karla þrátt fyrir að vera með 12 stig líkt og Magni og Leiknir Fáskrúðsfirði. Þróttur er með 24 mörk í mínus í markatölu en Magni með 25 mörk í mínus. Í Lengjudeild kvenna fara Keflavík og Tindastóll upp í Pepsí Max deildina.
Þetta gerist í kjölfar þess að hertar sóttvarnaráðstafanir voru kynntar fyrr í dag. Þær taka gildi strax á miðnætti og munu gilda um land allt næstu vikur, eða til 17. nóvember. Helstu breytingar eru þær að einungis 10 manns mega koma saman í stað 20 áður, aukin áhersla verður á grímunotkun, íþróttastarf leggst alveg af og sviðslistir sömuleiðis.