Seðlabanki Íslands var í dag sýknaður af rúmlega 300 milljóna króna skaðabótakröfu sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja í Héraðsdómi Reykjavíkur, en bankinn var hins vegar dæmdur til þess að greiða Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra fyrirtækisins persónulega tvær og hálfa milljón króna í skaðabætur og tvöhundruð þúsund krónu að auki í miskabætur í hans persónulega máli gegn bankanum.
Þetta kemur fram í fréttum bæði RÚV og Vísis, sem sendu fréttamenn til þess að vera viðstadda dómsuppkvaðninguna í dag. Dómarnir í málunum hafa nú verið birtir á vef Héraðsdóms Reykjavíkur, hér og hér.
Þorsteinn Már fór persónulega fram á 6,5 milljóna króna skaðabætur frá Seðlabankanum en fékk dæmdar samtals 2,7 milljón króna skaða- og miskabætur eins og áður sagði. Samherji krafði Seðlabankann um 306 milljóna skaðabætur og tíu milljónir króna í miskabætur til viðbótar, en bankinn var sýknaður af þeim kröfum.
Samherji var dæmdur til að greiða Seðlabankanum 3,7 milljónir króna í málskostnað í máli fyrirtækisins, en Seðlabankinn þarf að greiða Þorsteini Má tæpar 1,5 milljónir króna í málskostnað í hans persónulega máli.
Kröfurnar voru vegna tjóns sem Samherji og Þorsteinn Már sögðu að rannsókn Seðlabankans á ýmsum ætluðum brotum fyrirtækisins á meðan að fjármagnshöft voru við lýði á Íslandi hefði valdið fyrirtækinu og honum persónulega.
Bankinn var sem áður segir sýknaður af hárri kröfu fyrirtækisins, sem fól meðal annars í sér endurgreiðslu á kostnaði sem rann til fyrirtækja í eigu Jóns Óttars Ólafssonar afbrotafræðings, sem Samherji greiddi um það bil 130 milljónir króna fyrir að vinna í málum tengdum rannsókn Seðlabankans á Samherja.
Yfir 40 prósent af skaðabótakröfu Samherja voru því vegna greiðslna til félaga sem tengjast Jóni Óttari en einnig reyndi fyrirtækið að fá endurgreiddann ýmsan kostnað vegna lögmannsþjónustu og allan launakostnað vegna vinnu starfsmanna fyrirtækisins þann dag sem húsleit Seðlabankans fór fram á skrifstofum þess á Akureyri og í Reykjavík árið 2012, auk annars.
Í greinargerð lögmanns Seðlabankans í málinu sagði að tjónið sem Samherji sagðist hafa orðið fyrir væri ósannað. Í stefnu Samherja væri ekki að finna sundurliðun eða nánari tilgreiningu á því tjóni sem krafist væri undir liðnum skaðabætur og eiginleg sönnunargögn ekki lögð fram. „Þannig er ekkert reifað hvenær einstakir kostnaðarliðir féllu til eða af hvaða tilefni var til þeirra stofnað,“ sagði meðal annars í greinargerð lögmannsins.