Algjört bann hefur verið sett á komur ferðamanna frá Danmörku til Bretlands með þeirri undantekningu að breskum ríkisborgurum verður leyft að koma til landsins en þurfa þá að sæta tveggja vikna sóttkví ásamt öllum á sama heimili. Í gær voru settar reglur sem skylduðu alla sem komu til Bretlands frá Danmörku að sæta tveggja vikna sóttkví. Nú, sólarhring síðar, hafa reglurnar verið þrengdar með þeim hætti að enginn má koma frá Danmörku nema Bretar. Þetta gildir bæði um fólk sem dvalið hefur í landinu og um fólk sem millilent hefur í Danmörku.
Ástæðan fyrir þessum hörðu sóttvarnaaðgerðum eru hin margumtöluðu smit sem greinst hafa á dönskum minkabúum nýverið. Frá því í sumar hafa rúmlega 200 manns á Jótlandi greinst með kórónuveiru sem rakin er til minkanna. Af þeim sökum hafa dönsk yfirvöld hert aðgerðir í norðurhluta landsins. Þannig hafa íbúar sjö sveitarfélaga á Norður-Jótlandi verið beðnir um að halda sig innan sinna sveitarfélaga og sömuleiðis hafa aðrir verið beðnir að ferðast ekki til þessara sveitarfélaga. Í kjölfar útbreiðslunnar á búunum hafa Danir ákveðið að aflífa alla minnka á búum í landinu, um 15 til 17 milljónir. Danir eru stærstu framleiðendur minkaskinna í heimunum og á dönskum búum eiga um 40 prósent heimsframleiðslunnar uppruna sinn.
Í frétt BBC segir að yfirvöld í Bretlandi muni hafa samband við hvern þann sem heimsótt hefur Danmörku á undanförnum tveimur vikum. Þá er þar haft eftir breskum embættismönnum að þetta sé gert með það í huga að vernda lýðheilsu Breta, enda sé það forgangsmál þarlendra yfirvalda, og að ákvörðunin verði endurskoðuð eftir viku.
Í umfjöllun BBC kemur fram að Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, hafi sagt aðgerðirnar vera „heldur róttækar“ og að hann hafi átt í samtali við utanríkisráðherra Breta, Dominic Raab, í dag. Jeppe sagði enn fremur að dönsk heilbrigðisyfirvöld ynnu náið með alþjóðlegum heilbrigðisyfirvöldum við að dreifa upplýsingum og að passað væri upp á að „viðeigandi upplýsingar“ kæmust til breskra embættismanna.