Danska ríkisstjórnin hyggst leggja fram frumvarp á morgun sem mun veita yfirvöldum aðgang að öllum minkabúum landsins. Á Norður-Jótlandi hefur greinst stökkbreytt kórónuveira í bæði mönnum og minkum og hafa yfirvöld áhyggjur af því að bóluefni sem verið er að þróa gagnist ekki gegn þessu stökkbreytta afbrigði. Því tilkynnti Mette Frederiksen á miðvikudag að allir minkar á öllum búum landsins yrðu felldir. Minkarnir eru líklega um sautján milljónir talsins.
Yfirvöld hafa, að því er fram kemur í BT, þegar heimild til að aflífa dýr á búum þar sem upp er kominn sjúkdómur sem og á búum innan þess landsvæðis þar sem sjúkdómur kemur upp. En lagaheimild skortir til að fella dýr á búum annars staðar í landinu líkt og forsætisráðherrann hyggst láta gera.
Umhverfisráðuneytið í Danmörku hefur staðfest að frumvarpsdrögin hafi þegar verið samin og að til standi að koma með með hraði í gegnum þingið. Flýtimeðferðin er að sögn landbúnaðarráðherrans nauðsynleg vegna alvarleika málsins. Svo alvarleg sé staðan að ekki hafi þótt réttlætanlegt að bíða með að tilkynna um ákvörðun stjórnvalda þar til frumvarpið lægi fyrir.
Ekki eru allir á eitt sáttir að málið verði afgreitt með hraði. Henrik Dahl, þingmaður Liberal Alliance (LA), vill að málið verði skoðað ofan í kjölinn því að aflífun minkanna á landsvísu séu „ofbeldisfull og ýkt viðbrögð“. Hann segir það ekki hafa verið staðfest að hið stökkbreytta veiruafbrigði gæti ógnað bólusetningu gegn COVID-19 og því liggi ekkert á að keyra frumvarpið í gegn.
Lestu meira
Þingmenn Einingalistans (Enhedslisten) munu styðja ríkisstjórnina og samþykkja frumvarpið þar sem þeir telja um heilsufarsógn að ræða. Þingmenn Venstre hafa ekki tekið ákvörðun enda vilja þeir fyrst heyra rök ríkisstjórnarinnar og sjá frumvarpið.
Minkur sem millihýsill
Frá því í sumar hafa um 215 kórónuveirusmit í mönnum verið rakin til minkabúa í Danmörku. Að minnsta kosti tólf manneskjur á Norður-Jótlandi hafa greinst með stökkbreytt afbrigði veirunnar sem óttast er að geti stefnt virkni bóluefnis gegn COVID-19 í hættu. Þeir sem sýkst hafa af þessu afbrigði eru á aldrinum 7-79 ára. Átta þeirra tengjast minkabúum beint og fjórir tengjast svo þeim sýktu með öðrum hætti. Hið nýja afbrigði er kallað „klasi 5“ og hefur það ekki greinst áður. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir vísbendingar um að hið nýja afbrigði sé ekki eins móttækilegt fyrir mótefnum og önnur afbrigði kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 en að frekari rannsókna sé þörf.
Talið er að kórónuveiran SARS-CoV-2 hafi komist í menn úr leðurblökum. Það hefur þó ekki enn verið staðfest. WHO segir að minkar geti líkt og leðurblökur verið millihýslar veirunnar. Þeir hafa smitast af mönnum en síðan hefur veiran smitast þeirra á milli og loks aftur í menn.
„Allar veirur, SARS-CoV-2 þar með talin, breytast með tímanum,“ segir í yfirlýsingu sem WHO gaf út á föstudag. Veiran getur svo þróað með sér einstaka eiginleika í minkunum. „Aðgerðir sem dönsk stjórnvöld ætla að taka munu takmarka útbreiðslu minkaafbrigðis veirunnar í Danmörku.“
Veiran hefur greinst í minkum í sex löndum; Danmörku, Hollandi, Spáni, Svíþjóð, Ítalíu og Bandaríkjunum.