Yfir ein og hálf milljón manna hefur látist vegna COVID-19. Þriðjungur dauðsfallanna hefur orðið á síðustu tveimur mánuðum. Hvort sem bylgjan er kölluð önnur, þriðja eða fjórða, eftir því hvar fæti er drepið niður á jörðinni, er ljóst að víða er faraldurinn síst á undanhaldi. Dæmi um það er Ísland. Í 3. bylgjunni, sem hófst um miðjan september, hafa 17 látist en dauðsföllin voru tíu í þeirri fyrstu. Þá hafa yfir 3.500 greinst með kórónuveiruna í þessari bylgju miðað við rúmlega 1.800 í þeirri fyrstu.
Tæplega 65 milljónir jarðarbúa hafa greinst með veiruna frá upphafi faraldursins og síðustu viku hafa yfir tíu þúsund týnd lífi vegna hennar á hverjum einasta degi.
Vissulega hefur ákveðin bjartsýni ríkt síðustu vikur vegna góðra frétta af þróun bóluefnis. Vonast er til þess að hægt verði að hefja bólusetningu í Bretlandi, svo dæmi sé tekið, á næstu dögum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur þó varað við of miklum væntingum og sagði í gær að ekki væri hægt að ganga að því vísu að bólusetning hefjist hér a landi fljótlega eftir áramót. Hann hvetur til „raunhæfrar bjartsýni“ og segir að „jákvæðar fréttir“ af bóluefni megi ekki leiða til þess að landsmenn passi sig ekki í sóttvörnum.
Þessi varúðarorð eru ekki sögð að ástæðulausu. Og þau bergmála þessa dagana víða um heim. Á meðan þúsundir deyja daglega vegna sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur þurfa allir að gæta sín: Bjartsýnin má ekki gera illt verra.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, sagði í gær að þó að það styttist í að bóluefni verði tilbúið gæti heimsbyggðin átt eftir að fást við afleiðingar COVID-19 faraldursins í áratugi. Hann hrósaði vísindamönnum fyrir framlag sitt en minnti á að bóluefnið væri ekki „töfralausn“ við öllum vandamálum sem við stæðum nú frammi fyrir.
„Við skulum ekki blekkja sjálf okkur,“ sagði hann, „bóluefni getur ekki læknað þau mein sem hafa myndast og gætu átt eftir að vera viðvarandi í mörg ár – jafnvel áratugi. Alvarleg fátækt er að aukast og hungursneyð vofir yfir. Við stöndum frammi fyrir mestu alheimskreppu síðustu átta áratuga.“
Guterres sagði algjört lykilatriði að ekki væri slakað á í baráttunni gegn faraldrinum núna þó að bóluefni væri handan við hornið. „Þegar lönd fara í sitt hvora áttina mun veiran fara í allar áttir.“
Margar þjóðir, m.a. Íslendingar, þurfa nú að hlíta ströngum takmörkunum vegna faraldursins. Til stóð að gera tilslakanir hér á landi en vegna fjölgunar smita hætti sóttvarnalæknir snarlega við að mæla með því. Gildandi aðgerðir, með tíu manna hámarksfjölda, lokun sundlauga, líkamsræktarstöðva og annarra takmarkanna, munu standa til að minnsta kosti 9. desember.
Útgöngu- og ferðabann
Á Ítalíu, sem varð hvað verst úti af öllum Evrópulöndum í fyrstu bylgju faraldursins, verða jólin líkt og víðast annars staðar með öðru sniði í ár. Forsætisráðherrann Giuseppe Conte tilkynnti nýjar takmarkanir á miðvikudag sem eiga að koma í veg fyrir að jólahátíðin verði gróðrarstía fyrir útbreiðslu smita. Aðgerðirnar eru nokkuð strangar. Milli 21 desember og 6. janúar má fólk ekki ferðast milli svæða í landinu og dagana 25. og 26. desember má það ekki ferðast á milli bæja og borga.
Þá er útgöngubann í gildi í öllu landinu. Ekki má vera á ferli frá kl. 21 að kvöldi og til 4 að morgni.
Faraldurinn er enn skæður í Bandaríkjunum. Á miðvikudag greindust yfir 200 þúsund tilfelli. Þann dag létust að minnsta kosti 2.700 manns vegna COVID-19 og um 100 þúsund manns þurftu að leggjast inn á sjúkrahús á einum sólarhring.
Biden vill grímuskyldu
Joe Biden, verðandi forseti, ætlar að mælast til þess að grímuskylda verði sett á í landinu eftir að hann tekur við embætti.
Í Suður-Kóreu hefur smitum fjölgað á ný síðustu vikur og íhuga yfirvöld nú að herða aftur á takmörkunum. Í gær greindust 629 ný tilfelli sem er mesti fjöldi á einum degi frá því í í mars.
Forsætisráðherrann Chung Sye-kyun segir ástandið viðkvæmt, sérstaklega í ljósi þess að í nóvember voru aftur teknar upp ákveðnar sóttvarnaaðgerðir að nýju. Um helgina mun ríkisstjórnin ákveða hvort tilefni er til að herða þær enn frekar.
Meira en milljón einstaklingar hafa greinst með COVID-19 í Íran. Yfirvöld íhuga nú að gera ákveðnar tilslakanir á aðgerðum sem í gildi eru víða um landið.