Frá og með miðnætti í kvöld taka nýjar takmarkanir gildi á stóru svæði á suðausturhluta Englands. Takmarkanirnar eru kenndar við hið svokallaða fjórða viðbúnaðarstig (e. Tier four) og ná takmarkanirnar meðal annars til London og svæðanna þar í kring, Kent, Essex og Bedfordshire. Íbúum á þessum svæðum er meinað að hitta fólk sem það deilir ekki heimili með frá með morgundeginum til 30. desember. Þessar aðgerðir kynnti Boris Johnson á blaðamannafundi fyrr í dag og hægt er að lesa um þær á vef BBC.
Á fundinum greindi Johnson frá því að vísindamenn þar í landi hefðu greint nýtt afbrigði veirunnar sem dreifði sér mun hraðar heldur en áður þekkt afbrigði hennar. Hann tók fram á fundinum að ekki væri útlit fyrir að fólk sem smitaðist af þessu nýja afbrigði hefði veikst meira heldur en aðrir sem smitast höfðu af COVID-19 og að dánartíðni væri ekki hærri meðal þeirra sem smituðust af þessu nýja veiruafbrigði.
Til stóð að rýmka samkomutakmarkanir á Englandi í kringum jól, dagana 23. desember til og með 27. desember. Nú hefur það tímabil verið stytt niður í einn dag, sjálfan jóladag. Íbúar á þeim svæðum þar sem fjórða viðbúnaðarstig verður í gildi munu hins vegar þurfa að halda sig heima til og með 30. desember, líkt og áður segir.
Jólahald með óhefðbundnu sniði víðar í Evrópu
Englendingar bætast þar með í hóp annarra Evrópuþjóða sem þurfa að sætta sig við það að halda sig heima yfir hátíðirnar. Guiseppe Conte forsætisráðherra kynnti í gær hertar aðgerðir sem munu gilda á Ítalíu yfir jól og áramót. Frá 24. til 27. desember, frá 31. desember til 3. janúar og loks dagana 5. og 6. janúar mega Ítalir einungis ferðast frá heimilum sínum til þess að sinna vinnu, kaupa nauðsynjar eða sækja læknisþjónustu. Hvert heimili má þó taka við tveimur fullorðnum gestum á meðan þessar takmarkanir eru í gild. Þar gildir enn fremur útgöngubann milli klukkan tíu á kvöldin og til fimm á morgnanna.
Á vef BBC má lesa um hvaða aðgerðir eru í gildi í hinum ýmsu löndum Evrópu. Þar segir að nauðsynlegri verslun og þjónustu verði lokað fram í janúar í Hollandi og Þýskalandi. Yfir jólin mun þýskum fjölskyldum þó leyfast að taka á móti allt að fjórum nánum fjölskyldumeðlimum.
Í Austurríki taka sambærilegar lokanir gildi frá og með 26. desember og ferðalög fólks verða verulegum takmörkunum háð. Þá er í umfjöllun BBC fjallað um tilmæli sænskra yfirvalda er snúa að grímunotkun. Þar í landi er fólki nú ráðlagt að nota andlitsgrímur í almenningssamgöngum á háannatímum. Þá hefur hámarksfjöldi gesta á hverju borði sænskra veitingastaða verið lækkaður úr átta í fjóra og sala áfengis eftir klukkan átta á kvöldin verið bönnuð.