Julian Assange stofnandi Wikileaks sér nú fram á að dúsa marga mánuði til viðbótar í öryggisfangelsi í Bretlandi, en dómari við dómstól í Lundúnum hafnaði í dag beiðni hans um að fá að ganga laus gegn tryggingu.
Sami dómari, Vanessa Baraitser, komst á mánudag að þeirri niðurstöðu að Assange skyldi ekki framseldur til Bandaríkjanna vegna viðkvæmrar andlegrar heilsu sinnar, en bandarísk yfirvöld ætla að áfrýja þeirri niðurstöðu.
Lögmenn Assange reyndu í dag að færa rök fyrir því að hann ætti að fá að ganga laus gegn tryggingu á meðan áfrýjun Bandaríkjanna er tekin fyrir, en dómarinn féllst ekki á beiðni þeirra.
Samkvæmt frásögnum úr dómsal sagðist dómarinn – eftir að hafa hlýtt á röksemdir lögmanna Assange og bresku lögmannanna sem reka málið fyrir hönd Bandaríkjanna – telja nægilega ástæðu til að ætla að Assange myndi ekki mæta á staðinn þegar áfrýjunin verður tekin fyrir.
Assange verður því fluttur aftur í Belmarsh-öryggisfangelsið í Lundúnum, en þar hefur þessum tæplega fimmtuga Ástrala hefur verið haldið í nærri tvö ár, eftir að hann var handtekinn í sendiráði Ekvador í London vorið 2019.
Mál Bandaríkjanna gegn Assange tengist birtingu Wikileaks á 470.000 trúnaðarskjölum frá bandaríska hernum um utanríkisþjónustu og stríðin í Afganistan og Írak. Síðar birti Wikileaks 250.000 skjöl til viðbótar.
Bandarísk stjórnvöld hafa haldið því fram að um lögbrot og njósnir sé að ræða en Assange, Wikileaks og fjölmargir aðrir hafa sagt að upplýsingarnar sem Wikileaks birti og urðu fréttaefni víða um heim, hafi átt ríkt erindi við almenning.