Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur mælir með því að bóluefninu frá Moderna verði veitt skilyrt markaðsleyfi innan Evrópusambandsins, en frá þessu er greint í tilkynningu sem birtist á vef stofnunarinnar.
Á vef Lyfjastofnunar hér á landi segir að íslenskt markaðsleyfi verði veitt von bráðar, eða strax í kjölfar þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefur út markaðsleyfi sitt.
Á vef EMA segir að sérfræðinefnd stofnunarinnar um lyf fyrir menn hafi metið gögn um gæði, öryggi og virkni bóluefnisins frá Moderna og komist að samhljóða niðurstöðu um að mæla með dreifingu bóluefnisins og notkun þess fyrir einstaklinga yfir 18 ára aldri.
Þetta er annað bóluefnið sem hefur verið fengið meðmæli frá Lyfjastofnun Evrópu, en áður hafði bóluefni Pfizer og BioNTech hlotið samþykki stofnunarinnar og bólusetningar með því eru hafnar um alla Evrópu.
Í fréttatilkynningu frá stofnuninni er haft eftir Emer Cooke framkvæmdastjóra að bóluefni Moderna sé annað tól til að komast út úr því neyðarástandi sem ríkir vegna kórónuveirufaraldursins.
mRNA-tækni
Rétt eins og bóluefni Pfizer og BioNTech notast Moderna við genaupplýsingar (mRNA) fyrir svokölluð gaddprótein sem er að finna á yfirborði kórónuveirunnar, SARS-CoV-2. Þegar bóluefninu er sprautað í einstaklinga byrja frumur líkamans þannig að framleiða sín eigin gaddprótein og þjálfa sig í að takast á við veiruna.
Ónæmiskerfið lítur á gaddpróteinin sem framandi fyrirbæri og tekur til varna með því að framleiða mótefni og T-frumur, sem gera kórónuveirunni erfiðara um vik við að valda bólusettum skaða.
mRNA í bóluefninu verður ekki eftir í líkama þeirra sem eru bólusettir því það brotnar niður fljótlega eftir bólusetningu.
Bóluefnið frá Moderna þarf ekki að geyma við jafn mikinn kulda og bóluefnið frá Pfizer og BioNTech, sem þarf að geymast við allt að -80°C og flytja í sérútbúnum kælikössum á milli staða. Bóluefni Moderna er sagt geymast í allt að mánuð við 2-4 gráður, sem er um það bil sama hitastig og í ísskápnum heima hjá okkur flestum.
Von á 5.000 skömmtum hingað í janúar og febrúar
Ísland hefur þegar tryggt sér um 128 þúsund skammta af bóluefninu, sem duga fyrir um 64 þúsund einstaklinga. Gert er ráð fyrir að Ísland fái 5.000 bóluefnaskammta frá Moderna í janúar og febrúar en að eftir það verði afhendingin hraðari, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum bóluefni.is.
Þetta er sögð hlutfallslega sama úthlutun og til annarra þjóða í Evrópusamstarfi um kaup á bóluefnum, sem miðast við íbúafjölda þjóða.