Ljóst er að Inger Støjberg, fyrrum ráðherra innflytjendamála Danmerkur, muni fara fyrir landsdóm þar í landi vegna lagabrota sem hún framkvæmdi í embættistíð sinni. Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins, DR.
Samkvæmt frétt DR hafa þingmenn Sósíaldemókrataflokks Danmerkur ákveðið að kjósa með því að Støjberg fari fyrir landsdóm, en með því er kominn meirihluti í þinginu fyrir ákærunni. Þetta yrði sjötta landsdómsmálið í sögu Danmerkur.
Kjarninn hefur áður fjallað um mál Støjberg, en hún braut lög með fyrirskipunum sínum um málefni hælisleitenda, samkvæmt skýrslu sem birtist í síðasta mánuði frá sérstakri rannsóknarnefnd.
Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að ákvörðun ráðherrans fyrrverandi um að aðskilja gifta hælisleitendur ef annar aðilinn væri undir 18 ára aldri hafi verið ólögmæt. Einnig hefði Støjberg, að minnsta kosti sex sinnum, beinlínis sagt ósatt við yfirheyrslur þingnefndar (samråd).
Óljóst var hvort Sósíaldemókrataflokkurinn myndi styðja ákæru á hendur Støjberg fyrir landsdóm, þar sem það gæti aukið líkurnar á því að ráðherrar innan flokksins yrðu einnig ákærðir fyrir landsdóm. Ráðherrar innan flokksins hafa verið ásakaðir um að brjóta lög í minkamálinu svokallaða, þegar ákveðið var að aflífa alla minka Danmerkur af ótta við að nýtt afbrigði af kórónuveirunni myndi breiðast út með þeim.