5.725 manns hafa fengið eina sprautu af bóluefnum Pfizer/BioNTech eða Moderna til þessa á Íslandi og 480 manns hafa fengið tvær sprautur og því lokið bólusetningu.
Rúmlega 40 prósent fólks yfir 90 ára aldri hefur fengið a.m.k. eina sprautu og tæp 13 prósent þeirra sem eru á aldrinum 80-89 ára.
Þetta kemur fram vefnum covid.is, en þar er búið að setja upp tölfræðisíðu um framgang bólusetningar á Íslandi. Vefurinn, sem fór í loftið í dag, er hliðstæður tölfræðivefnum þar sem hægt hefur verið að fylgjast með framgangi COVID-19 faraldursins á Íslandi, smitum, fjölda í sóttkví og sjúkrahúsinnlögnum.
Hin ýmsa tölfræði er tekin saman, meðal annars hversu margir skammtar af bóluefnunum hafa verið gefnir á hverjum degi. Á því stöplariti má sjá tvær súlur dagana 29. desember og 30. desember, þegar tæplega 5.000 manns voru bólusett með bóluefni Pfizer og BioNTech eftir að fyrsta sendingin bóluefnisins kom til landsins.
Nú er að hefjast seinni bólusetning þeirra sem fengu bólusetningu í kjölfar fyrstu sendingarinnar frá Pfizer og í gær voru 487 skammtar af því bóluefni gefnir. Þegar næsta sending bóluefna kemur til landsins er þó áætlað að útdeila öllum skömmtunum strax, í stað þess að halda hluta til hliðar.
Samkvæmt því sem kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi á mánudag munu 3.500 manns í elstu aldurshópum fá sína fyrstu sprautu af bóluefninu í þessari viku, en þeir skammtar komu til landsins á mánudagsmorgun.
Enginn yfir 70 ára aldri fékk Moderna-bóluefnið
Dagana 13., 14. og 15. janúar var 1.259 skömmtum af bóluefni Moderna útdeilt. Samkvæmt því sem fram kemur á bólusetningarvefnum á covid.is fékk enginn yfir 70 ára aldri bóluefni Moderna.
Hópar sem voru bólusettir með því bóluefni voru framlínustarfsmenn á borð við lögreglumenn, starfsfólk í farsóttarhúsi og sjúkraflutningamenn.
Á vefnum má einnig sjá tölfræði yfir fjölda bólusettra á hverja 100.000 íbúa eftir heilbrigðisumdæmi. Öll heilbrigðisumdæmin eru þar á svipuðu róli, með á annað prósent íbúa bólusett a.m.k. einu sinni.