Óvissa hefur enn og aftur skapast um hvort Ólympíuleikarnir fari fram í Tókýó í ár líkt og ákveðið var er þeim var frestað í fyrra vegna heimsfaraldursins. Í fréttum The Times og Reuters er vitnað til ónafngreindra heimildarmanna um að japönsk stjórnvöld hafi þegar ákveðið að aflýsa leikunum sem fram eiga að fara í júlí.
Þessum fréttum hafa stjórnvöld í Japan neitað í dag á sama tíma og faraldurinn er enn útbreiddur víðast hvar í heiminum og gríðarleg óvissa umlykur framgang bólusetninga.
Forsætisráðherra Japans sagði fyrr í vikunni að enn væri stefnt að því að halda Ólympíuleikana í júlí. Það sama sagði forseti alþjóða ólympíunefndarinnar. Í kjölfarið fóru fjölmiðlar að kafa ofan í málið og loks birta fréttir af því að ákvörðun um að aflýsa liggi þegar fyrir.
„Enginn vill vera fyrstur til að segja það en allir eru sammála um að þetta yrði of erfitt,“ hefur Times eftir heimildarmanni sem sagður er háttsettur innan japönsku stjórnsýslunnar. „Persónulega held að það verði ekki af þeim.“
Fréttirnar voru fyrst birtar í morgun og talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar hafnaði þeim þegar í stað. „Það er ekkert sannleikskorn í fréttinni,“ sagði hann á blaðamannafundi.
Í fréttinni er einnig sagt að japönsk stjórnvöld og skipuleggjendur leikanna í Tókýó ætli að reyna að tryggja sér leikana árið 2032, næstu leika sem eru „á lausu“.
Mikill meirihluti almennings í Japan er á því að hætta eigi við leikana. Í könnun sem gerð var í desember af ríkisútvarpinu NHK voru aðeins 27 prósent aðspurðra fylgjandi því að halda þá í sumar. Sú könnun var gerð áður en ný bylgja faraldursins skall á í landinu. Síðustu daga hafa verið að greinast yfir 6.000 tilfelli á dag. Á þriðjudag létust í fyrsta sinn yfir hundrað manns á einum degi vegna COVID-19.
Slúðurfréttir eða afneitun?
Borgarstjóri Tókýó vísaði fréttum um að leikunum verði aflýst á bug í dag og sagði að engar slíkar viðræður hefur farið fram. Enn sé stefnt að því að halda leikana.
Aðstandendur leikanna segja „slúðurfréttir“ á borð við þessar mjög óheppilegar þar sem þúsundir íþróttafólks um allan heim séu að undirbúa sig fyrir þátttöku. Stjórnarandstaðan á japanska þinginu segir hins vegar að óvissan sé þegar til staðar og því betra að taka ákvörðun fyrr en síðar.
Ástralskir fjölmiðlar hafa greint frá því í dag að forsprakkar ólympíunefndar þar í landi segi „orðróminn“ ekki eiga við nein rök að styðjast. „Ólympíueldurinn verður kveiktur 23. júlí 2021,“ sagði Matt Carroll, formaður áströlsku nefndarinnar í morgun.
Neyðarástand í Tókýó
Fleiri landsnefndir hafa tjáð sig í morgun. Bæði bandaríska nefndin og sú kanadíska tilkynntu á Twitter að þær hefðu engar upplýsingar fengið um að til greina komi að fresta leikunum.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Tókýó og fleiri borgum og landamærum Japans lokað fyrir ferðamönnum vegna þriðju bylgju faraldursins sem nú gengur yfir.
„Núna höfum við ekki nokkra ástæðu til að halda að Ólympíuleikarnir í Tókýó verði ekki settir þann 23. júlí á ólympíuleikvanginum í Tókýó,“ hefur Reuters eftir Thomas Bach, forseta alþjóða ólympíunefndarinnar.
Sex mánuðir eru til stefnu.