Karlmaður á sextugsaldri er í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn hennar á skemmdum sem voru unnar á bifreið borgarstjóra og húsnæði Samfylkingarinnar á dögunum.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að málið sé litið mjög alvarlegum augum og hefur rannsókn þess verið í algjörum forgangi hjá embættinu.
Dagur sagði í viðtali við RÚV að það væri „höggvið ansi nærri manni þegar heimilið er annars vegar, því þar býr ekki bara ég heldur fjölskylda mín og krakkarnir“
Borgarstjóri sagðist í viðtalinu hafa tekið eftir skotgötum á fjölskyldubifreiðinni síðasta laugardag, er hann var að ganga inn í bílinn. Lögregla hafi síðan fengið bílinn í hendur, tekið hann til rannsóknar og fundið kúlur inni í hurðinni.
Dagur sagði enn fremur í viðtalinu að ekki liggi nákvæmlega ljóst fyrir hvenær skotið var á bílinn eða hvort bíllinn hafi þá staðið fyrir utan heimili hans. Þessir hlutir væru á meðal þess sem lögregla rannsaki nú.
Árásirnar hafa verið fordæmdar þverpólitískt.
Ólafur Guðmundsson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem lét þau orð falla í athugasemdakerfi Vísis eftir að málið kom upp að borgarstjóri ætti að byrja á sjálfum sér, byltingin væri „komin heim“ og því ætti borgarstjórinn bara að taka, vék í gær úr þremur ráðum borgarinnar vegna orða sinna.
Ólafur mun ekki lengur vera varamaður í skipulags- og samgönguráði, öldungaráði og innkaupa- og framkvæmdaráði Reykjavíkurborgar. Þrátt fyrir það verður hann áfram varaborgarfulltrúi.