Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður út í svokallaða útrýmingarleið (e. elimination strategy) í glímunni gegn veirunni á upplýsingafundi almannavarna í dag og sagði þessa leið hafa verið til umræðu hér allt frá því að faraldurinn byrjaði.
Hann segist hafa talið að það „væri mjög illa framkvæmanlegt að vera með þá strategíu að útrýma veirunni.“ Þórólfur sagði að þetta væri ekki bara eins og „einhver tölvuleikur“ þar sem stýripinni væri hreyfður og veirunni útrýmt. Þetta er nánast það sama og Þórólfur sagði við Kjarnann í síðustu viku.
Myndu Íslendingar sætta sig við „lockdown“ út af einu smiti?
Þórólfur sagði að í Ástralíu væri gripið til þess að setja allt í „lockdown“ tímabundið ef eitt tilfelli veirunnar greindist.
„Ég er ekki viss um að fólk hér myndi sætta sig við það,“ sagði Þórólfur og bætti við að þetta væri ástæðan fyrir því að við hefðum viljað bæla veiruna eins og hægt er með „eins lítt íþyngjandi aðgerðum og hægt er.“
Kjörstaða núna
Þórólfur sagði aðspurður að Ísland væri í „kjörstöðu“ núna, með faraldurinn í lágmarki innanlands og harðar aðgerðir á landamærum til að lágmarka áhættuna á að smit bærist inn í landið.
Hann sagði mikið spurt hvort ekki ætti að gera frekari kröfur á ferðamenn sem hingað koma og nefndi að hjá Evrópusambandinu væri verið að skoða að gera almennt kröfu um neikvætt COVID-próf áður en fólk færi í flug. Þetta ætti eftir að skoða betur.
Yfir fimmtíu tilfelli B.1.1.7
Fram kom í máli Þórólfs á fundinum að fimmtíu og fimm manns hefðu greinst með veiruafbrigðið B.1.1.7 („breska afbrigðið“) hér á landi. Þar af hafa þrettán smitast innanlands, en allir voru þeir í nánum tengslum við einhverja sem komu smitaðir að utan.
Ekkert nýtt smit greindist um helgina og enginn hefur greinst utan sóttkvíar síðan 20. janúar.
Ekki hægt að fullyrða að veiran leynist ekki í samfélaginu
Þórólfur sagði að hann væri að skoða tillögur að frekari tilslökunum á sóttvarnareglunum hér innanlands, en kvaðst ekki tilbúinn að ræða neitt frekar um það sem hann væri að íhuga að leggja til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Það yrði tilkynnt þegar þar að kæmi, sennilega á næstu dögum.
Hann sagði að það þyrfti að fara varlega í alla tilslakanir, til að reyna að tryggja að ekki kæmi bakslag í faraldurinn. Ekki væri hægt að fullyrða að veiran væri ekki lengur til staðar einhversstaðar úti í samfélaginu, þrátt fyrir að fá smit hafi greinst síðustu daga.
Atvinnurekendur hvattir til að tryggja að fólk haldi sóttkví
Þórólfur beindi því til atvinnurekenda að tryggja að fólk sem kæmi að utan til vinnu hér á landi fari ekki til vinnu fyrr en niðurstaða lægi fyrir úr seinni skimun og haldi sóttkví eins og reglur mæla fyrir um.
„Því miður eru enn dæmi um að eftir þessu sé ekki farið,“ sagði Þórólfur. Hann minnti á að lítið þyrfti til að ný bylgja færi af stað, þriðja bylgjan hefði byrjað hjá fólki sem greindist á landamærunum en „fór sennilega ekki eftir reglum.“