Ekki var búið að leggja drög að því með hvaða hætti bóluefnisrannsókn Pfizer yrði háttað þegar Kári Stefánsson, Már Kristjánsson og Þórólfur Guðnason funduðu með fulltrúum Pfizer í vikunni. Þetta kom fram í Vikulokunum á Rás 1 í dag en einn gesta þáttarins var Kjartan Hreinn Njálsson aðstoðarmaður landlæknis.
„Það átti eftir að teikna upp þessa rannsókn, þetta var ekki komið á það stig að þau voru komin með einhverjar rannsóknarspurningar og væru búin að setja upp einhvern ramma fyrir vísindarannsókn, það var ekki komið á það stig,“ sagði Kjartan Hreinn í þættinum. Varðandi siðferðilega hluta málsins sagði Kjartan að það hefði verið mjög mikilvægt að eiga samtal um þann hluta málsins eftir að búið væri að teikna upp ramma rannsóknarinnar.
Spurður að því hvort Íslendingar hefðu getað tekið þátt í slíkri rannsókn með góðri samvisku sagði Kjartan svo vera, þó ekki endilega við jafn góðar aðstæður og nú eru uppi. Þar að auki hefði rannsókn á bóluefni núna, þegar svo lítið er um smit, ekki skilað þeim mikilvægu gögnum sem þarf í svokallaðri fjórðu fasa rannsókn með bóluefni.
Allt önnur staða þegar viðræður hófust
Viðræður við Pfizer höfðu staðið yfir um nokkra vikna eða jafnvel mánaðarskeið því eins og kom fram í máli Kjartans þá var staðan hér allt önnur þegar viðræður hófust. „Þá voru hérna einhver 20, 25 smit á dag. Þannig að það hefur mikið breyst síðan þetta fór allt saman af stað. En þetta getur auðvitað breyst aftur en það er algjörlega óráðið og á eftir að koma í ljós hvort það verði einhverjar frekari viðræður ef slík staða kemur upp, sem ég vona nú að gerist ekki.“
Það sem af er þessum mánuði hafa átta smit greinst innanlands, þar af fjögur í fyrradag þau tengdust öll komu einstaklings frá útlöndum. Á landamærunum hafa í febrúar greinst fjórtán virk smit. Í gær greindist eitt smit á landamærunum og ekkert innanlands.