Marktækur munur er á því hvort fólk trúi því að Samherji hafi greitt mútur til stjórnmála- og embættismanna í Namibíu eftir því hvort fólk býr annars vegar á Akureyri eða Dalvík eða hins vegar annarsstaðar á landinu. Á Akureyri og Dalvík, þar sem starfsemi Samherja er umfangsmikil og áhrif fyrirtækisins á nærsamfélag sömuleiðis, segjast 71 prósent íbúa trúa því að Samherji hafi greitt mútur til að fá kvóta í Namibíu. Á landsvísu er það hlutfall hins vegar 92 prósent.
Þetta kemur fram í könnun sem Stundin fékk MMR til að gera vegna umfjöllunar blaðsins um heimavígi Samherja, sem birt var í dag. Alls svöruðu 1.127 manns könnuninni og þar af voru 908 búsettir utan Akureyrar og Dalvíkur.
Í könnuninni voru þátttakendur líka spurðir hvort álit þeirra á útgerðarfélaginu Samherja hefði verið óbreytt síðastliðinn tvö ár eða hvort það hefði breyst til hins betra eða verra. Alls sögðust 69 prósent aðspurðra á landsvísu að álit þeirra á Samherja hefði versnað og einungis fjögur prósent að það hefði batnað. Á Eyjafjarðarsvæðinu var niðurstaðan önnur. Alls 36 prósent aðspurðra á Akureyri og Dalvík sögðu að álit þeirra á Samherja hefði versnað en tíu prósent að það hefði batnað. Tæpur helmingur svarenda þar, 47 prósent, sögðu að viðhorfið væri óbreytt. Á landsvísu var það hlutfall 28 prósent.
Líkt og Kjarninn greindi frá í ágúst í fyrra þá hefur Samherji sjálfur einnig mælt traust fólks til sín. Í netkönnun sem Gallup sendi út á viðhorfshóp sinn í lok júlí 2020 var fólk meðal annars spurt hvort það væri ánægt eða óánægt með „aðgerðir Samherja í kjölfar ásakana um mútur í Namibíu“. Þetta er ekki eina skiptið sem Gallup hefur mælt hver ímynd fyrirtækisins er í hugum landsmanna undanfarið rúmt ár. Niðurstöður þessara mælinga hafa ekki verið gerðar opinberar.
Vilja vita hvernig ákvarðanir voru teknar
Samherji hefur verið mikið til umfjöllunar síðastliðið rúmt ár. Þann 12. nóvember 2019 birtist umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu.
Angar af því máli eru nú til rannsóknar í Namibíu, á Íslandi og hjá fjármálaeftirlitinu í Noregi. Þegar hafa verið lagðar fram ákærur í Namibíu á hendur félögum tengdum Samherja og þremur íslenskum stjórnendum þeirra. Á Íslandi eru sex manns með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á Samherjamálum. Um er að ræða núverandi og fyrrverandi starfsmenn og stjórnendur Samherja. Á meðal þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Kjarninn greindi frá því fyrr í þessum mánuði að endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, sem vann lengi fyrir Samherja, hafi verið gert að láta embætti héraðssaksóknara í té upplýsingar og gögn varðandi bókhald og reikningsskil allra félaga Samherjasamstæðunnar á árunum 2011 til 2020. Einnig þarf fyrirtækið að láta héraðssaksóknara hafa upplýsingar og gögn sem varða eina tiltekna skýrslu sem KPMG vann um starfsemi Samherja á árunum 2013 og 2014 í tengslum við rannsóknina.
Lesa má í úrskurði héraðsdóms vegna þessa að héraðssaksóknari telji nauðsynlegt að upplýsa um atriði sem varði fjárhag- og rekstrarafkomu félaga innan samstæðu Samherja vegna rannsóknar málsins. Sömuleiðis að það hafi þýðingu fyrir rannsókn embættisins að upplýsa eins og hægt er hvernig töku ákvarðana var háttað innan samstæðu Samherja.
Athyglin beinist að Kýpur
Kveikur, fréttaskýringaþáttur RÚV sem ásamt Stundinni, Wikileaks og Al Jazeera stóð að upprunalegu umfjölluninni um Samherjaskjölin í nóvember 2019, birti framhaldsumfjöllun um málið í gærkvöldi.
Þar kom meðal annars fram að grunur sé um frekari mútugreiðslur til stjórnmálamanns í Namibíu en áður hefur verið greint frá hérlendis og kafað ofan í Kýpurstarfsemi Samherja.
Kýpur hefur verið nokkurs konar heimahöfn alþjóðlegrar starfsemi Samherja um margra ára skeið. Í umfjöllun Kveiks var vitnað til tölvupósts frá árinu 2009 sem Stundin birti fyrir nokkrum árum síðan, frá Baldvini Þorsteinssyni, þáverandi framkvæmdastjóra Afríkuútgerðar Samherja og núverandi forstjóra Samherja í Evrópu, þar sem stóð: „„Tilgangurinn er eftirfarandi: Að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins þar sem enginn skattur er á hagnað fyrirtækisins. Við teljum Kýpur vera rétta landið. Með því að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins Kötlu Seafood getum við lækkað skiptahlut sjómanna og stjórnað betur á hvaða verðum við myndum gera upp. […] Með því að draga úr hagnaði þar og láta hagnaðinn myndast hjá sölufyrirtækinu þá tækist okkur að auka hagnað heildarinnar. Þetta teljum við nokkuð snyrtilega leið til að draga úr skattgreiðslum.“
Ári síðar færði Samherji umfangsmikla fisksölu til Kýpur og hefur haft mikla starfsemi þar alla tíð síðan, en skattar á fyrirtæki þar í landi eru mun lægri en t.d. á Íslandi.
Í Kveik voru umsvif Kýpurfélaga Samherja, Esju Seafood og Esju Shipping, og fjölmargra dótturfélaga þeirra rakin. Félögin tvö eru með umsvif og tuga milljarða króna eignir út um allan heim. Þegar Kveikur bankaði upp á skrifstofu þeirra í Limassol á Kýpur var hins vegar enginn þar. Og skrifstofan, sem líktist frekar herbergi, virðist að mestu vera til málamynda samkvæmt því sem fram kom í Kveik. Grunur rannsóknaraðila á Íslandi beinist að því að raunveruleg stjórnun Samherjasamstæðunnar hafi öll verið á Íslandi.
Þá kom einnig fram í Kveik að í skýrslu rannsóknarendurskoðenda sem ráðnir voru af samstarfsfólki Samherja í Namibíu komi fram að þeir telji útgerðina hafa svikið fé af fólkinu. Í rannsóknarskýrslu þeirra er lagt til að málið verði kært til lögreglu og krafa gerð á Samherja um að greiða fyrrverandi samstarfsfólkinu milljarða króna.
Í viðtali í Morgunblaðinu
Samherji vildi ekki svara spurningum Kveiks vegna umfjöllunarinnar og óskum um viðtal við þá starfsmenn og stjórnendur sem tengdust umfjölluninni var hafnað. Þess í stað birti fyrirtækið efni á heimasíðu sinni sem bar fyrirsögnina „Óljósar aðdróttanir Ríkisútvarpsins“. Í því efni birti fyrirtækið mynd af þremur blaðamönnum Kveiks og sagði að svo virtist „sem fréttamenn Ríkisútvarpsins ætli að freista þess enn á ný að endurvinna gamlar upplýsingar um útgerðina í Namibíu í þeim tilgangi að koma höggi á Samherja.“ Engin tilraun er gerð í efninu til að svara efnislega því sem fram kom í umfjöllun Kveiks í gær.
Þorsteinn Már, sem var einn þeirra sem Kveikur óskaði eftir viðtali við, var svo til viðtals í Morgunblaðinu á síðu 2 í morgun. Í þeirri frétt er haft eftir honum að hann muni ekki missa svefn yfir umfjöllun Kveiks. Hún sé áframhaldandi aðför Ríkisútvarpsins að Samherja og starfsmönnum hans. „»Þarna kemur ekkert fram sem ekki er hægt að hrekja. Verulegar skattgreiðslur voru greiddar til Íslands vegna skipa sem aldrei komu til Íslands,“ er haft eftir Þorsteini Má. Ekki kemur fram í frétt Morgunblaðsins hvernig það sem sett var fram í Kveik verði hrakið.