65 manns höfðu greinst með delta-afbrigði kórónuveirunnar hér á landi þann 13. júlí. Raðgreining á smitum síðustu daga stendur enn yfir og því gæti þessi tala verið hærri í raun. Fyrsta tilfellið af delta-afbrigðinu greindist 13. janúar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið að af þessum 65 smitum hafi sextán verið svokölluð afleidd smit innanlands, þ.e. fólk sem hefur smitast af afbrigðinu á Íslandi, ekki erlendis. Að minnsta kosti þrettán einstaklingar sem greinst hafa með delta-afbrigðið voru fullbólusettir en Þórólfur segir áreiðanlegar upplýsingar frá öllum greindum ferðamönnum um bólusetningar ekki liggja fyrir.
Hætt var að skima bólusetta ferðamenn við komuna til landsins þann 1. júlí. Þórólfur segir koma til greina af sinni hálfu að breyta því, fari delta-afbrigðið að greinast í enn meira mæli.
Þórólfur sagði í hádegisfréttum RÚV að ljóst væri að veirusmitin væru farin að dreifa sér nokkuð víða. Hann benti ennfremur á að fullbólusettir gætu smitast, þeir gætu smitað aðra og jafnvel veikst alvarlega. Í ljósi þróunarinnar síðustu daga, þar sem 24 innanlandssmit hafa greinst á aðeins fjórum dögum, búist hann jafnvel við að herða þurfi ráðstafanir á landamærum. Þá útilokar hann ekki að grípa þurfi einnig til þess að setja aftur á aðgerðir innanlands, gerist staðan tvísýnni. Hann sagði svo í viðtali við Vísi að hann væri með minnisblað til ráðherra í smíðum þar sem hann mun leggja til breytingar á aðgerðum á landamærunum. Forgangsatriði væri að stöðva flutning á veirunni inn í landið.
Rannsóknir benda til að delta-afbrigðið sé um 60 prósent meira smitandi en þau sem áður höfðu komið fram. Það uppgötvaðist fyrst á Indlandi og setti þar af stað í vor stærstu bylgju faraldursins frá upphafi. Það hefur nú greinst í vel yfir hundrað löndum og er orðið ráðandi afbrigði veirunnar í mörgum löndum Evrópu, m.a. á Spáni þar sem sprenging hefur orðið í fjölda tilfella að undanförnu.
Á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær, þeim fyrsta sem haldinn hefur verið í 49 daga, sagði Þórólfur „klárt“ að virkni bóluefnanna væri ekki eins góð og hann hafði vonast eftir. Mikill meirihluti þeirra sem greinst hefur með veiruna innanlands síðustu daga hefur verið fullbólusettur. Þórólfur talaði því um „nýjan kafla“ í baráttunni við COVID-19. Á meðan bólusetningar væru ekki útbreiddari í heiminum en raun ber vitni megi áfram búast við nýjum afbrigðum veirunnar. Því þurfi fólk að lifa með sóttvarnaaðgerðum næstu mánuði og hugsanlega lengur, „kannski í ár, ég veit það það ekki. Þetta er hvergi nærri búið þótt margir virðist líta svo á“.