Facebook-hópar þar sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti er sýndur sem velviljaður, brosmildur og friðelskandi leiðtogi hafa skotið upp kollinum á samfélagsmiðlinum frá því að stríðið í Úkraínu hófst fyrir rúmum einum og hálfum mánuði.
Milljónir manns hafa séð færslur þar sem sjá má Pútín dást að krúttlegum dýrum, í fallegum barnaskara eða í valdamiklum uppstillingum. Þau sem standa á bak við þessa Facebook-hópa eru ofuraðdáendur Pútíns. Blaðamenn BBC hafa ásamt rannsakendum hjá hugveitunni Institute for Stratetic Dialogue (ISD) reynt að komast til botns í því hvaðan þessir aðdáendur koma og hvað það er nákvæmlega sem þeir gera.
Að minnsta kosti tíu Facebook-hópar, sem eru ýmist opnir öllum eða lokaðir hópar, hafa verið stofnaðir frá því að stríðið í Úkraínu hófst 24. febrúar. Heiti hópanna tengjast Pútín á einn eða annan hátt, til að mynda Russia: True Leader of the Free World, Vladimir Putin - Defender of Russia og Friends of Vladimir Putin and the Russia.
Samtals eru meðlimir hópanna um 650 þúsund og sjá þeir myndir og færslur þar sem Pútín er lofaður í hástert á nokkrum tungumálum, svo sem ensku, rússnesku, arabísku, persnesku og khmer, sem talað er í Kambódíu.
Yfir þrjár og hálf milljón séð loffærslur um Pútín á Facebook
Mikil virkni er í hópunum. Síðastliðinn mánuð töldu rannsakendur ISD alls 16.500 færslur sem náðu til 3,6 milljónir manna. Markmið hópanna virðist vera að sýna Pútín sem hetju sem berst gegn Vesturlöndum með yfirgnæfandi stuðningi alþjóðasamfélagsins.
Á myndum sem birtar eru í hópunum má meðal annars sjá Pútín í valdamiklum stellingum, haldandi á hvolpum, stara djúpum augum í myndavélina, heilsa upp á herlið og á baki ýmis konar dýra, allt frá hestum til ljóna. Sumir hóparnir hafa verið til lengi en frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst 24. febrúar hefur meðlimum þeirra fjölgað um meira en hundrað þúsund.
Rannsakendur ISD-hugveitunnar komust að því að margir stjórnendur hópanna eiga fleiri en einn aðgang undir sama nafni. Að minnsta kosti 100 dæmi eru um slíkt í hópunum. Eigendur þessa aðganga fylgja hver öðrum og bregðast við færslum hver annarra með hjörtum eða öðrum lyndistáknum. Þá láta stjórnendur hópanna líta út fyrir að hópurinn sé á vegum rússneskra yfirvalda eða leyniþjónustunnar, sem er augljóslega ekki rétt.
Margir aðgangar undir sama nafni kunna að brjóta gegn reglum Facebook um áreiðanlega hegðun að mati rannsakenda ISD. Moustafa Ayad, yfirrannsakandi hugveitunnar, segir starfsemi hópanna dæmi um svokallað „astroturfing“, þar sem skilaboðum er komið á framfæri þar sem látið er líta út fyrir að uppruni þeirra sé hjá viðurkenndum aðila, svo sem stjórnvöldum.
Herferðin „gefur til kynna útbreiddan stuðning við Pútín og stjórnvöld í Kreml í skugga innrásarinnar og treystir á óáreiðanlega aðganga til að ná markmiði sínu,“ segir í skýrslu ISD um aðdáendahópa Pútíns á Facebook.
Blaðamenn BBC grennsluðust fyrir um stjórnendur hópanna og komust að ýmsu misjöfnu. Einn stjórnandinn, Marine, sem segist vera búsett í Sýrlandi, notar þrjá mismunandi aðganga til að lýsa yfir stuðningi við Pútín. Allir aðgangar hennar, sem eru á arabísku, birta færslur á sama tíma dags.
„Raj Pútín“ frá Kenýa: „Pútín er frábær leiðtogi“
Erfiðlega gekk að komast í samband við stjórnendur hópanna. Einn þeirra, sem gengur undir nafninu Raj Putin á Facebook og er frá Kenýa, svaraði símtali blaðamanns. Í stuttu samtali sagði hann Rússlandsforseta „frábæran leiðtoga“ en vildi ekki ræða stríðið. Engin svör bárust við skriflegri fyrirspurn blaðamanns um ástæðu fyrir þessum mikla áhuga á Rússlandi.
Erfitt er að henda reiður á hvað tengir stjórnendur hópanna. Engin augljós tengsl eru við rússnesk yfirvöld líkt og í öðrum herferðum sem byggja á upplýsingaóreiðu, herferðin er ekki úthugsuð og stjórnendur hópanna reyna ekki að fara leynt með markmið sitt, það er að lofsyngja Pútín. Ekki er því hægt að útiloka að aðdáendahóparnir haf einhver tengsl við rússnesk yfirvöld eða önnur öfl innan Rússlands sem eru hliðholl Pútín.
Facebook er með sérstaka stefnu gagnvart gervi-aðgöngum og hefur eytt nokkrum eftir ábendingar frá ISD og skýrslu hugveitunnar. „Við munum halda áfram að grípa til harðra aðgerða til að koma í veg fyrir dreifingu villandi upplýsinga um krísuna í Úkraínu,“ segir talsmaður Meta, móðurfyrirtækis Facebook.
Pútín þarf ekki samfélagsmiðla
En það eru ekki bara hópar á Facebook sem snúast um Pútín, gerviaðgangar í hans nafni hafa einnig verið að skjóta upp kollinum. Pútín er einn af fáum heimsleiðtogum sem eru ekki á samfélagsmiðlum. Það sem meira er, hann á víst ekki einu sinni snjallsíma.
Samkvæmt talsmanni forsetans þarf hann ekki á samfélagsmiðlum að halda þar sem þeir „veita honum ekkert sem hann hefur nú þegar“.
Einhverjir hafa ákveðið að nýta sér tækifærið og stofna gerviaðganga í nafni Pútíns. Einn aðgangurinn hefur nærri þrjár milljónir fylgjenda en honum var eytt fljótlega eftir að innrásin í Úkraínu hófst. Í einni af síðustu færslunum var talað um innrásina sem friðargæslu með það að markmiði að stuðla að afvopnun nágrannaríkisins. Ekki er vitað hver stóð á bak við aðganginn en uppruni hans er rakinn til Rússlands og Lettlands.