Þrátt fyrir methagnað Húsasmiðjunnar í fyrra stendur ekki til að endurgreiða þær hlutabætur sem greiddar voru til starfsfólks fyrirtækisins vegna kórónuveirufaraldursins. „Nei, það hefur nú ekki komið til tals. Þetta var náttúrlega í mjög stuttan tíma sem við nýttum þetta,“ segir Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, í samtali við Kjarnann.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutastarfaleiðina kemur fram að í mars og apríl í fyrra voru 148 starfsmenn fyrirtækisins settir á hlutabætur og námu greiðslur úr opinberum sjóðum vegna þessa alls rúmri 31 milljón. Þeir fjármunir verða ekki endurgreiddir þrátt fyrir methagnað, en líkt og fram kom í viðtali Markaðarins við Árna í vikunni nam hagnaður Húsasmiðjunar í fyrra um 900 milljónum króna fyrir skatta.
Spurður að því hvers vegna fyrirtækið ætli ekki að endurgreiða hlutabæturnar, líkt og sum fyrirtæki hafa ákveðið að gera, segir Árni að bæturnar hafi ekki runnið til fyrirtækisins heldur til starfsfólks þess. Þá segir hann upphæðina vera lága. Að mati Árna hafi mátt taka tillit til stærðar verslana þegar fjöldatakmarkanir voru ákveðnar á sínum tíma. Verslanir Húsasmiðjunnar séu stórar en hafi þurft að lúta sömu reglum og minni verslanir.
Telja sig hafa tekið ábyrga afstöðu
„Við teljum okkur hafa tekið mjög ábyrga afstöðu. Við vorum sett í stöðu sem við vildum alls ekki vera í. Við vorum ósammála aðgerðum og okkur þótti allt of grimmt vera farið, að taka ekkert tillit til stærðar. Við vorum í raun og veru sett undir sama hatt og 50 fermetra verslun í Kringlunni,“ segir Árni.
Hann nefnir það einnig að hlutabótaleiðin hafi verið nýtt á stuttu tímabili, frá síðari hluta mars í fyrra til síðari hluta apríl en á því tímabili hafi veltutap fyrirtækisins numið rúmum 200 milljónum króna miðað við sama tímabil ári fyrr. Árni segir að reksturinn á fyrsta fjórðungi ársins 2020 hafi farið hægt af stað, óvissan vegna COVID kom því á slæmum tíma: „Við sáum ekkert í kristalskúlunni hvað myndi verða.“
Að sögn Árna tók veltan við sér í síðari hluta apríl og fyrirtækið því hætt að nýta hlutastarfaleiðina í kjölfarið. „Um leið og veltan tók við sér þá fóru starfsmenn í fullt starfshlutfall og við nýttum þá ekkert þessi úrræði í framhaldi,“ segir Árni.
Eigandi Húsasmiðjunnar er danska byggingavörukeðjan BYGMA. Árni bendir á að eigendurnir hafi ekki greitt sér arð út úr félaginu á síðustu árum heldur hafi hagnaður liðinna ára farið í að efla félagið og fjárfesta hér inannlands.
Úrræðið ekki ætlað stöndugum fyrirtækjum
Ríkisendurskoðun fjallaði ítarlega um hlutastarfaleiðina í skýrslu sinni sem kom út í maí í fyrra og áður hefur verið minnst á hér að ofan. Í niðurstöðukafla skýrslunnar er sagt að af lögunum og lögskýringargögnum hafi mátt ráða að úrræðið hefði ekki verið ætlað stöndugum fyrirtækjum.
Í skýrslunni segir einnig að nokkuð frjálsræði hafi verið á túlkun laganna. „Í hópi þeirra aðila sem hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina eru fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag en ekki verður séð af lögunum og lögskýringargögnum að slíkt hafi verið ætlunin,“ segir meðal annars í skýrslunni. Þar kom einnig fram að sum fyrirtæki hefðu boðað endurgreiðslu á hlutabótum.
Í apríl síðastliðnum óskaði Kjarninn eftir gögnum frá Vinnumálastofnun um umfang endurgreiðslna hlutabóta. Í minnisblaði Vinnumálastofnunar sem dagsett er 23. apríl kemur fram að þá höfðu alls 88 fyrirtæki endurgreitt hlutabætur og að heildarfjárhæð endurgreiðslna næmi tæpum 380 milljónum króna.