Þörf er á samræmdu regluverki á alþjóðavísu fyrir rafmyntir svo að þær valdi ekki óstöðugleika á fjármálamarkaði, en sveiflur í virði myntanna gæti leitt til mikilla sveiflna á hlutabréfamarkaði. Þetta kemur fram í greiningu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), sem kom út í vikunni.
36 prósenta fylgni
Samkvæmt greiningunni hefur fylgni á milli virðis rafmynta, líkt og Bitcoin og Ether, og S&P 500 hlutabréfavísitölunnar vestanhafs aukist töluvert á síðustu árum. Þetta er mikil breyting frá tímabilinu 2017-2019, þar sem engin fylgni var á milli verðs á rafmyntunum og hlutabréfaverðs. Á síðustu tveimur árum jókst fylgnin á milli rafmynta og hlutabréfa hins vegar til muna og náði 36 prósentum.
Fylgnin gengur í báðar áttir, þ.e. að verðfall í rafmyntum hefur neikvæð áhrif á markaðinn og öfugt. AGS segir að sveiflur í virði Bitcoin geti útskýrt þriðjung af sveiflunum í S&P 500 vísitölunni. Aðrar rafmyntir og svokallaðar stöðugleikamyntir (e. stablecoins), sveiflast líka í takt við hlutabréf, en valda þó minni áhrif á markaðinn. Stærsta stöðugleikamyntin, Tether, útskýrir um fjögur til sjö prósent af sveiflum á bandarískum hlutabréfamarkaði.
Þörf á regluverki
Gita Gopinath, aðalhagfræðingur AGS, vakti athygli á greiningunni á Twitter-síðu sinni í gær, en þar segir hún að mikil fylgni í virði Bitcoin við hlutabréfamarkaðinn bendi til þess að fjárfesting í myntinni bjóði ekki upp á jafnmikla áhættudreifingu og áður var talið.
"Bitcoin's correlation with stocks has turned higher than that between stocks and assets such as gold, investment grade bonds, and major currencies, pointing to limited risk diversification benefits in contrast to what was initially perceived." #IMFblog https://t.co/0EhROZfX88 https://t.co/Bgn2QZVJxD
— Gita Gopinath (@GitaGopinath) January 11, 2022
Þessi mikla fylgni gæti einnig orðið áhættusöm fyrir stöðugleika fjármálakerfisins, sérstaklega í þeim löndum þar sem notkun á Bitcoin er almenn. Eitt þessara landa er El Salvador, en líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um er rafmyntin þjóðargjaldmiðill þar í landi.
Sérfræðingar hjá AGS segja því að nú sé tími til að skapa samræmt og skýrt regluverk fyrir rafmyntir á alþjóðavísu sem ríkisstjórnir einstakra landa gætu notað til að stuðla að fjármálastöðugleika. Slíkt regluverk gæti innihaldið auknar kröfur á þær fjármálastofnanir sem stunda viðskipti með rafmyntir og aðgerðir til að koma í veg fyrir fulla nafnleynd þeirra sem nota þær.