Fjöldi sjúklinga sem eru alvarlega veikir af COVID-19 hefur ekki verið meiri í Ísrael í þrjá mánuði. Í tölum frá heilbrigðisráðuneyti landsins, sem voru gefnar út í morgun og dagblaðið Haaretz greinir frá, segir að 97 sjúklingar séu með alvarleg einkenni og hefur þeim fjölgað um 30 prósent á einni viku. Ástand 22 er sagt tvísýnt og sautján eru í öndunarvél á gjörgæslu. Ekki hefur enn komið fram hvort og þá hversu margir þeirra sem liggja á sjúkrahúsi eru bólusettir.
Í gær greindust 966 ný smit í Ísrael en á sama degi fyrir viku voru tilfellin 430. Sharon Alroy-Preis, lýðheilsusérfræðingur heilbrigðisráðuneytisins, sagði í viðtali í morgun að umfangsmiklar bólusetningar í landinu drægju augljóslega úr alvarlegum veikindum en þeim færi þó fjölgandi. „Fjöldi alvarlegra veikra sjúklinga mun halda áfram að aukast ef við grípum ekki til aðgerða til að draga úr fjölgun smita,“ sagði hún í viðtalinu. Ísraelar eru að hennar sögn á allt öðrum stað í faraldrinum en þeir voru í fyrstu bylgju hans í mars á síðasta ári vegna bóluefnanna.
Nackman Ash, sem fer fyrir aðgerðateymi í tengslum við veirufaraldurinn, sagði í morgun að þrátt fyrir að bólusetningin kæmi í veg fyrir gríðarlega fjölgun alvarlegra tilfella samhliða fjölgun smita þá væri sá fjöldi engu að síður umtalsverður. Í dag væru um 100 manns alvarlega veikir af því „erum við byrjuð að hafa áhyggjur“.
Nú eru 11.390 eru með virkt smit í Ísrael og alvarlega veikir því innan við 1 prósent þeirra.
Um níu milljónir manna búa í Ísrael. Kannanir sýna að um ein milljón vill ekki láta bólusetja sig. Forsætisráðherra landsins sagði í sjónvarpsávarpi fyrir helgi að þennan hóp þyrfti að sannfæra um gildi bólusetningarinnar nú þegar „delta-faraldurinn“ tröllríður öllu.
Þegar hefur verið ákveðið að grípa til hertra aðgerða í Ísrael sem m.a. felast í því að óbólusettir þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi á ýmsum samkomustöðum þar sem yfir 100 manns koma saman innandyra. Hinir óbólusettu þurfa sjálfir að greiða fyrir prófið. Þá verður grímuskylda á ákveðnum stöðum einnig tekin upp að nýju.
Um 60 prósent ísraelsku þjóðarinnar eru fullbólusett. Bólusetningar barna niður í allt að 12 ára eru hafnar.
Ísrael samdi við lyfjarisann Pfizer í byrjun árs um að samhliða almennri og hraðri bólusetningu yrðu gerðar rannsóknir á virkni efnisins. Sú nýjasta bendir til að vörnin gegn smiti og mildum einkennum af delta-afbrigðinu er mikið minni en gegn öðrum, eða rétt um 40 prósent. Sama rannsókn bendir einnig til að vörn gegn alvarlegum veikindum sé milli 80-90 prósent.