Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir að hann hafni öllu ofbeldi og hafi „aldrei gerst brotlegur gagnvart neinum eða neinni“. Það sem nú viðgangist sé „slaufunarmenning eða útilokunarmenning og hana ætti ekki að líða“ og að hann ætli sér ekki að vera meðvirkur gagnvart dómstól götunnar varðandi atvik sem á að hafa átt sér stað fyrir ellefu árum síðan. „Hafi einhver eitthvað út á mig að setja þá bið ég viðkomandi vinsamlegast að hlífa mér ekki, ásaka mig frekar og nafngreina og gefa mér kost á að verja mig. Það er heiðarlegt.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögmaður Arons Einars sendi á fjölmiðla í dag, en hann var ekki í landsliðshópnum sem tilkynntur var skömmu eftir hádegi og það sagt vera vegna „utanaðkomandi“ ástæðna.
Aron Einar segir í yfirlýsingunni að á samfélagsmiðlum hafi verið til umræðu atburður sem sagt sé að hafi átt sér stað í Kaupmannahöfn 2010. „Ég hef ekki fengið tækifæri til að ræða málið formlega við KSÍ, eða verið gefinn kostur á standa á rétti mínum gagnvart ávirðingunum, og því sárnar mér þessi fyrirvaralausa ákvörðun um að verða settur út úr liðinu. Í ofanálag hefur lögregla aldrei haft samband við mig vegna nokkurs máls. Ég hef engar tilkynningar fengið um að ég hafi á einhverjum tímapunkti verið undir grun og aldrei verið boðaður í yfirheyrslu.“
Hann segist hafa ákveðið að óska eftir því við lögregluyfirvöld að fá að gefa skýrslu um þetta kvöld fyrir ellefu árum.
Sagði ákvörðunina í samráði við Aron Einar
Þegar Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfarið var spurður út í það á blaðamannafundi í dag af hverju Aron Einar væri ekki í hópnum þá sagðist hann hafa tekið þá ákvörðun sjálfur. „Ástæðurnar fyrir því eru utanaðkomandi og ég get ekki farið nánar út í það í dag. Ég bið ykkur að virða það.“
Hann sagðist hafa átt góð samtöl við Aron Einar um málið en fyrirliðinn gaf kost á sér í liðið. Arnar Þór sagðist ekki vita hvað framtíðin bæri í skauti sér varðandi veru Arons Einars í landsliðinu en þessi ákvörðun ætti einungis við um þessa tvo leiki.
Samkvæmt Arnari Þór var ákvörðunin tekin í samráði við Aron Einar. Hann vildi ekki útskýra nánar hvað fælist í þessum „utanaðkomandi“ aðstæðum en þegar tíminn væri kominn á að gera það myndu þeir útskýra málið frekar.
í samtali deildarstjóra samskiptadeildar KSÍ við Kjarnann í dag kom fram að stjórn KSÍ hefði ekki haft afskipti af vali þjálfara karlalandsliðsins í fótbolta fyrir komandi leiki.
KSÍ segist hafa fengið ábendingu um málið
Málið hefur valdið miklum titringi innan KSÍ en það hófst þegar Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifaði grein í Vísi þar sem hún sakaði KSÍ um þöggun varðandi kynferðisofbeldi af hendi landsliðsmanna.
Vísaði hún til frásagnar ungrar konu af kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir árið 2010 sem hún birti á samfélagsmiðlum í byrjun maí en gerendurnir voru sagðir hafa verið landsliðsmenn Íslands í fótbolta. „Fleiri frásagnir eru um landsliðsmenn sem eru sagðir beita konur ofbeldi – bæði kynferðislegu og heimilisofbeldi. Þetta virðist ekki hafa haft nein áhrif á velgengni þessara manna. Þeim er hampað og njóta mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Þöggunin er alger, og KSÍ ber vitaskuld ábyrgð á henni,“ sagði meðal annars í grein Hönnu Bjargar.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að KSÍ hafi fengið ábendingu um meint atvik eftir landsleik Danmerkur og Íslands í Kaupmannahöfn í september 2010 þar sem tveir landsliðsmenn voru ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi gegn stúlku „snemmsumars á þessu ári“ eða 2. eða 3. júní síðastliðinn. Seinnipart sumars barst svo aftur skrifleg ábending um sama mál.
Þetta kom fram í svari KSÍ við fyrirspurn Kjarnans. KSÍ svaraði ekki hvort málið hafi farið í sérstakan verkferil þegar ábendingin barst í byrjun júní.
Guðni neitaði því að ábending hefði verið formleg
Guðni Bergsson fyrrverandi formaður KSÍ sem sagði af sér embætti í lok síðasta mánaðar neitaði því hins vegar í samtali við Kjarnann að sambandið hafi fengið formlega ábendingu um meint kynferðisbrot landsliðsmanna. KSÍ hefði borist nafnlaust bréf þar sem meðal annars var spurt hvort þau vildu „virkilega að fyrirmyndir allra barna sem hafa áhuga á fótbolta“ væru kynferðisafbrota- og ofbeldismenn.
„Við vissum um tilvist þessa máls í gegnum samfélagsmiðla. Við vissum það. Það kom upp á yfirborðið í júnímánuði en ég hefði ekki vitneskju um það hvort þetta tiltekna nafnlausa bréf beindist að þessu máli enda kemur það ekkert fram í bréfinu,“ sagði Guðni. „Við reyndum auðvitað að átta okkur á því miðað við hvernig sú frásögn var án nafngreiningar hvað væri í raun og veru hægt að gera í málinu. Við reyndum í sjálfu sér að fá það fram í gegnum tengilið hvað hún vildi viðhafast í málinu þar sem hún væri með forræði á því.“
Þegar Guðni var spurður hvort KSÍ hefði náð sambandi við þolandann svaraði hann því neitandi. „Við náðum allavega aldrei að ræða við hana. Þolandinn ræddi aldrei beint við okkur, nei.“
Í bréfinu sem Kjarninn hefur undir höndum er ekki tilgreint sérstakt atvik eða nöfn þolenda eða geranda.
Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, áréttaði í samtali við Kjarnann sama dag að KSÍ hefði borist ábending um málið. Hann sagðist ekki hafa vitneskju um það hvort umrætt bréf hafi verið ábendingin en hann staðfestir í tvígang að ábending hafi borist KSÍ í byrjun júní. „Það er alveg klárt mál.“