Ellefu mál sem snúa að kynferðislegu áreiti eða kynbundnu ofbeldi komu á borð stjórnenda Isavia-samstæðunnar á árunum 2017 til 2020. Þremur málum lauk með sátt og átta málum með starfslokum geranda.
Þetta kemur fram í svari Isavia við fyrirspurn Kjarnans.
Isavia ohf. annast uppbyggingu og rekstur Keflavíkurflugvallar. Dótturfélög þess Isavia ANS og Isavia Innalands reka annars vegar flugleiðsöguþjónustu á einu stærsta flugstjórnarsvæði heims og hins vegar net innanlandsflugvalla á Íslandi. Þessu til viðbótar rekur dótturfélagið Fríhöfnin ehf. fimm verslanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Hjá Isavia og dótturfélögum vinnur hópur sem telur um 1.000 manns.
„Ofbeldi, einelti eða önnur sálfélagsleg áreitni, þar með talið kynbundin og kynferðisleg áreitni, er ekki undir neinum kringumstæðum umborin hjá Isavia,“ segir í svarinu.
Þegar upp koma mál af þessu tagi er viðbragðsáætlun Isavia virkjuð. Samkvæmt fyrirtækinu er viðbragðsáætlun sem þessi tekin reglubundið til endurskoðunar eins og allar áætlanir hjá Isavia. „Ein slík endurskoðun er í gangi þessar vikurnar og er ekki lokið,“ segir í svari Isavia.
Meðvirkni starfsmanna fordæmd
Fram kemur í viðbragðsáætluninni að í starfsmannastefnu Isavia sé lögð rík áhersla á að bæði líkamlegt og andlegt heilsufar starfsmanna, gagnkvæma virðingu, umburðarlyndi og stuðning þeirra á meðal. Viðbragðsáætlun við einelti og annarri sálfélagslegri áreitni sé frekari útfærsla á því markmiði og gildir fyrir allar starfsstöðvar Isavia. Það sé stefna Isavia að starfsmenn vinni í anda samstarfs og sýni þannig samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og önnur sálfélagsleg áreitni, svo sem kynbundin og kynferðisleg áreitni, verður undir engum kringumstæðum umborin. Meðvirkni starfsmanna í slíkum tilvikum sé jafnframt fordæmd.
„Viðbragðsáætlun þessi á við um allar starfsstöðvar Isavia og jafnt um starfsmenn, stjórnendur og verktaka sem starfa á vegum fyrirtækisins. Mun Isavia bregðast við ábendingum um einelti, áreitni eða ótilhlýðilega háttsemi í samræmi við viðbragðsáætlun þessa og í samstarfi við atvinnurekanda utanaðkomandi einstaklings sem á í samskiptum við starfsmenn Isavia. Við mat á því hvort viðbragðsáætlun sé virkjuð skiptir ekki máli hvort gerandi sé starfsmaður eða til dæmis viðskiptavinur,“ segir meðal annars í áætluninni.
Þegar mál telst nægjanlega upplýst skuli mannauðsstjóri taka ákvörðun, í samráði við aðra stjórnendur eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins, til hvaða aðgerða verði gripið í samræmi við alvarleika máls hverju sinni.
„Þegar atvik eða hegðun telst vera einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðilega hegðun verður brugðist við eftir eðli máls með því að veita geranda tiltal, áminningu, tilfærslu í starfi eða honum sagt upp störfum. Þolanda og geranda verður veitt viðhlítandi aðstoð. Haldi þolandi og gerandi áfram störfum er lögð áhersla á að breytingar verði gerðar á vinnustaðnum eins og kostur er, svo sem breytingar á vinnuskipulagi, verkferlum, staðsetningu innan starfsstöðva og svo framvegis,“ segir enn fremur í viðbragðsáætluninni.