Allir ellefu bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykktu á fundi í gær bókun þar sem skorað er á Arion banka, eiganda kísilverksmiðjunnar í Helguvík, að falla frá áformum um endurræsingu hennar.
Í bókuninni er fjallað um frétt Kjarnans frá því í síðustu viku þar sem upplýst var um að Arion banki og PCC SE, meirihlutaeigandi kísilversins PCC BakkiSilicon hf. á Húsavík, hafi undirritað viljayfirlýsingu varðandi möguleg kaup á kísilverksmiðjunni í Helguvík. Um síðustu áramót lauk mati á umhverfisáhrifum á endurbótum, endurræsingu og stækkun verksmiðjunnar með áliti Skipulagsstofnunar.
„Bæjaryfirvöld hafa áður lýst neikvæðri afstöðu sinni til endurræsingar og vilja til samstarfs um aðrar leiðir,“ segir í bókuninni. „Þá liggur það einnig fyrir að stærstur hluti íbúa er því algjörlega mótfallinn að verksmiðjan verði endurræst.“
Bæjarstjórnin telur að nýtt mat á umhverfisáhrifum gerir lítið til þess að breyta skoðun bæjaryfirvalda og íbúa sveitarfélagsins. „Það er því ljóst að framundan gætu verið harðar langvarandi deilur milli aðila, verði áfram haldið með þessi áform, sem gera ekkert annað en að valda öllum aðilum verulegum skaða.“
Bæjarstjórn ítrekar því vilja sinn til samráðs um aðrar leiðir og annars konar starfsemi í Helguvík.
Bæjarfulltrúarnir sem samþykktu bókunina eru: Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Þ. Guðmundsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Gunnar Þórarinsson (Á), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (M) og Styrmir Gauti Fjeldsted (S).