Um leið og bandarísk stjórnvöld tilkynntu að landamærin yrðu opnuð fyrir bólusettum ferðamönnum frá og með 8. nóvember varð sprenging í fyrirspurnum til ferðaskrifstofa og í gegnum leitarvélar á netinu. Bókunum í gegnum Skyscanner, sem er ein vinsælasta síða veraldar þegar kemur að því að leita að flugferðum, fjölgaði um 800 prósent samdægurs og 28 prósent aukning varð í leit að gistingu í Bandaríkjunum í gegnum vef Expedia.
Icelandair hefur ekki farið varhluta af þessum endurvakta áhuga á ferðum til Bandaríkjanna, bæði frá Íslendingum sem og öðrum Evrópubúum og samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu hafa bókanir þangað þegar aukist.
Þeir hafa verið margir og langir mánuðirnir sem fólk hefur almennt ekki getað ferðast til Bandaríkjanna. Þótt ferðalanga þyrsti augljóslega marga í að komast þangað eru það ekki síst ástvinir sem hafa verið aðskildir vegna faraldursins sem eru hvað fegnastir.
Tíðindin af opnun landamæranna höfðu einnig áhrif á ferðavilja Bandaríkjamanna sjálfra – bæði innanlands og utan. Þakkargjörðarhátíðin er á næsta leyti og jólin svo handan við hornið. Bjartsýni hefur aukist og fólk mun viljugra að ferðast eftir að stjórnvöld ákváðu að opna landamærin fyrir bólusettum. Ákvörðuninni er tekið sem ákveðnum skilaboðum um að óhætt sé að ferðast – að faraldurinn hafi minni áhrif á ferðalög nú en síðustu mánuði.
Í svörum Icelandair við fyrirspurn Kjarnans segir að eftirspurn Bandaríkjamanna hingað til lands hafi verið sterk og að þeir stór hluti ferðamanna sem hingað hafa komið síðustu mánuði. Fréttir á borð við opnun landamæra hafi yfirleitt jákvæð áhrif í báðar áttir og þannig finni flugfélagið fyrir auknum áhuga á ferðalögum almennt. „Eftir áttunda nóvember verður opið á milli allra okkar markaðssvæða og það skapar aukið jafnvægi í starfseminni okkar og opnar á ný tækifæri,” segir í svari Icelandair.
Icelandair flýgur nú til níu áfangastaða í Bandaríkjunum en stefnir á að þeir verði orðnir fjórtán næsta sumar.
Búðu þig undir einhverjar tafir
Þótt flugvélar margra flugfélaga séu að hefja sig til flugs þá er hins vegar nokkuð víst að ferðaþjónustan og veitingageirinn í Bandaríkjunum mun mögulega hökta að einhverju leyti – að minnsta kosti fyrst í stað. Uppsagnir hafa verið í þessum greinum, líkt og annars staðar í heiminum, og aðeins nokkra vikna fyrirvari var gefinn á opnun landamæranna. Að manna öll störf mun taka tíma.
Hins vegar segjast yfirvöld tilbúin að taka á móti fjölda fólks á flugvöllunum og að skoðun skilríkja, bólusetningarvottorða meðal annars, eigi að ganga nokkuð snurðulaust fyrir sig. Það má þó vissulega búast við töfum frá því sem var fyrir heimsfaraldurinn.
Í fréttaskýringu New York Times um ferðalög á þessum óvissutímum segja ferðaþjónustuaðilar einmitt að búast þurfi við hinu óvænta. Og að flestir eigi orðið von á því að eitthvað komi upp á. Þess vegna sé mælt með því að skipuleggja ferðalög vel, bóka gistingu tímanlega og flug sömuleiðis. Krossa svo fingur og búast við hinu besta. Sumir ferðamenn vilja hins vegar gera þveröfugt, bóka með stuttum fyrirvara þegar óvissan í kringum ferðalagið er minni.
Þessi bið gæti þó kostað sitt. Verð eru þegar farin að hækka og sum hótel á vinsælustu ferðamannastöðunum eru til að mynda strax orðin fullbókuð yfir hátíðirnar. Verð á innanlandsflugi í Bandaríkjunum fer einnig hækkandi og samkvæmt ferðaappinu Hopper er það að nálgast það að vera á pari við það sem þekktist í kringum jólin árið 2019. Millilandaflug er þó enn ódýrara sem kann þó að breytast með aukinni eftirspurn er nær dregur desember.
Stefna á sífellt meira framboð
Icelandair segir að nú á fjórða ársfjórðungi 2021 sé gert ráð fyrir að flugframboðið hjá flugfélaginu verði um 65 prósent af því sem það var árið 2019 sem var síðasta heila rekstrarárið áður en faraldurinn skall á. „Hins vegar stefnum við á að ná upp í 80 prósent af framboði þess árs næsta vor.“
Stóri óvissuþátturinn í ferðalögum nútímans er auðvitað þróun faraldursins. Hvort að smitum fari að fjölga á ný, ýmist í því landi sem fólk er að ferðast frá eða í Bandaríkjunum, eða hvort hlutirnir haldist í svipuðu horfi og þá sóttvarnaaðgerðir sömuleiðis.
Nýjasta smitbylgjan skall á Bandaríkjunum í ágúst og hefur verið á stöðugri niðurleið síðustu vikur. Smittölur eru þó enn töluvert hærri en þær voru snemma í sumar. Stærsta bylgjan sem gekk yfir landið hófst í byrjun nóvember í fyrra og gekk ekki niður fyrr en í byrjun febrúar. Um 75 þúsund manns hafa greinst með veiruna daglega að meðaltali síðustu vikuna. Bólusetningar ganga ágætlega og eru nú tæplega 60 prósent Bandaríkjamanna full bólusett og yfir 70 prósent 12 ára og eldri.