Ríkisstjórn Ástralíu ætlar að styrkja lög til verndar menningu frumbyggja landsins. Þetta tilkynnti umhverfisráðherrann Tanya Plibersek í dag.
Lagabreytingin er hluti af viðbrögðum stjórnarinnar við rannsókn þingnefndar á stórfyrirtækinu Rio Tinto sem eyðilagði árið 2020 helgar steinhvelfingar frumbyggja í Juukan Gorge í vesturhluta landsins. Fyrirtækið, sem er mjög umfangsmikið í námuvinnslu í landinu, var að stækka járngrýtisnámu sína og sprengdi upp hvelfingarnar sem voru frumbyggjum sögulega og menningarlega mikilvægar.
„Það er óhugsandi að einhver myndi vísvitandi eyðileggja Stonehenge, píramídana í Egyptalandi eða Lascaux-hellana í Frakklandi,“ sagði Plibersek er hún kynnti hinar áformuðu lagabreytingar á ástralska þinginu í dag. „Þegar Bamyan-búddastytturnar voru eyðilagðar í Afganistan þá varð heimsbyggðin réttilega öskureið. En það nákvæmlega sama gerðist í Juukan Gorge.“
Hins vegar þykir nú ljóst að sögn Plibersek að með eyðileggingu hvelfinganna hafi Rio Tinto ekki brotið nein lög. Hún vill meina að sökin liggi í því að lög og reglur vernda svæði sem þessi ekki nægilega mikið fyrir námuvinnslu og öðrum framkvæmdum. „Það sem er ljóst í skýrslu [þingnefndarinnar] er að kerfið okkar virkar ekki sem skyldi.“
Ástralska ríkisstjórnin mun vinna drög að lagabreytingunum í samstarfi við regnhlífarsamtök 30 samtaka frumbyggja í landinu. Helsta markmiðið er að gera lagaumhverfið þannig úr garði að það standi vörð um menningarminjar.
Ákveðið hefur verið, líkt og þingnefndin lagði til í skýrslu sinni, að með nýju lögunum verði réttur frumbyggja til að koma að ákvarðanatöku við framkvæmdir sem gætu með einhverjum hætti haft áhrif á þeirra menningararfleifð.
Samfélög frumbyggja við Juukan Gorge hafa hins vegar gagnrýnt að þau hafi ekki verið höfð með í ráðum hvað varðar framhaldið í kjölfar skýrslunnar. „Allt þetta hófst með eyðileggingu menningarminja okkar. Allir segja stöðugt að þeim þyki þetta leitt en aðgerðir skipta meira máli en orð,“ sögðu samtök samfélaganna í sameiginlegri yfirlýsingu. „Við höfum séð eyðilegginguna og við vitum hvað þarf að gera.“
Algengt er að skemmdir séu unnar á menningarminjum frumbyggja eða þær hreinlega eyðilagðar, segir Jamie Lowe, forseti ráðs sem hefur umsjón og eftirlit með ráðstöfun á landi sem tilheyrir frumbyggjum Ástralíu. Hann fagnar því að herða eigi lög og reglur enda hafi verið kallað eftir slíkum breytingum í fjölda ára.
Misskilningur Rio Tinto
Jacob Stausholm, forstjóri Rio Tinto, segir að fyrirtækið muni nú fara yfir tillögur stjórnvalda. „Við ætlum að halda áfram að gera hvað við getum til að vera besti samstarfsaðili sem hugsast getur og spila áfram lykilhlutverk í að tryggja að mikilvægar menningarminjar njóti verndar.“
Steinhellarnir í Juukan Gorge voru um 46 þúsund ára gamlir. Eyðilegging Rio Tinto átti sér stað í maí árið 2020 en á þessum slóðum er stærstu járngrýtisnámu fyrirtækisins, og þeirri sem gefur mest í vasann, að finna. Forsvarsmenn fyrirtækisins héldu því í fyrstu fram að um „misskilning“ hefði verið að ræða og að þeir hafi ekki fengið upplýsingar um að staðurinn væri menningarlega mikilvægur og heilagur í hugum fólksins sem þarna býr.
Þessi viðbrögð, sem fyrrverandi forstjórinn hélt m.a. fram, hleyptu illu blóði í fjárfesta, m.a. ástralska lífeyrissjóðinn Hesta. Framkvæmdastjóri sjóðsins sagði ekki nóg að leysa þá sem beri ábyrgð á hneykslinu frá störfum heldur þyrfti að rannsaka málið ofan í kjölinn sem og aðra samninga sem fyrirtækið er með við heimafólk, oft frumbyggjasamfélög, á starfssvæðum sínum.